31.08.1917
Neðri deild: 48. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Pjetur Þórðarson:

Jeg get skilið það, að frá sjónarmiði háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sjeu þetta góðar og gildar ástæður, sem hann færði fyrir því, að nema ætti burt þetta skilyrði, sem. krafist er til þess, að prestar megi gefa saman hjón, þegar meinbugir eru á, sem hjer er um að ræða. Jeg er háttv. þm. (E. A.) alveg samdóma um, að svo sje, frá þessu sjónarmiði skoðað. En að eins vildi jeg benda á, að það geta komið fleiri ástæður til greina í þessu máli, sem hafa valdið því, að prestar hafa orðið hart úti fyrir að stofna til hjónabands, án þess að gæta þessa skilyrðis, vegna þess, að þeir hafa með giftingunni brotið rjett á þeim, sem hin almenna framfærsluskylda hvílir á. Dæmum til þessa er oftast nær þannig varið, að hlutaðeigandi prestur hefir verið beinlínis knúður til að gefa saman hjón á þennan hátt, af utan að komandi ástæðum, og það alt öðrum en háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram í ræðu sinni. Tilgangurinn hefir þá verið sá, að koma væntanlegri sveitarbyrði af sínum hrepp og yfir á annan.

Og jeg get ekki fallist á, að ekki beri að líta nokkuð á það, að þessi skylda prestsins getur verið nokkuð rjettmæt, frá því sjónarmiði sjeð, og megi því ekki draga úr eða fella burt slík ákvæði, sem hjer er farið fram á. Sveitarstjórnir geta þannig fengið yfirskynsástæðu til að losa sig við byrði og koma henni á annan, sem getur ekki varið sig slíkum áföllum. Og jeg veit vel, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A) hefir haft í huga dæmi, er við báðir þekkjum og getur ekki úr minni liðið, er hreppsfjelag varð fyrir ómaklegum kostnaði í tvísýnu máli, er það lagði út í, til að fá hlut sinn rjettan. Jeg veit vel, að ef slík ákvæði, sem frv. þetta flytur, yrðu að lögum, gæti það orðið til þess að fyrirbyggja, að farið væri út í slíka sálma, og afmá alla hvöt til að reyna að ljetta af sjer ómaklegri byrði; en hvort nægileg ástæða er til að nema burt skyldu prestanna veit jeg ekki, því að jeg sje ekki, að það sje ofmikil kvöð á prestana að fullnægja þessum skilyrðum. Svo skil jeg ekki, að þær hindranir á hjónaböndum, er af þessu kynnu að stafa, geti valdið neinu því, er fer í bág við sæmilegt siðferði. Eins og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram er það nú ekki álitið eins mikið siðferðisbrot og áður en lögin voru samin, þótt fyrir komi, að persónur búi ógiftar saman og börn fæðist utan hjónabands. Jeg hefi ekki mikla trú á, að þetta frv. bæti mikið úr skák eða geri persónunum ljettara að komast í hjónaband.

Þótt þetta sýnist meinlaus ákvæði í sjálfu sjer, efa jeg þó, hvort þau sjeu til bóta.

(St. St.: Ákvæði brtt.!). Jeg skoða brtt. í fullu samræmi við frv. Jeg álít þar gengið í rjetta átt til að fullkomna það, sem frv. gerir ráð fyrir, en efast um, hvort það er fremur gott en hitt.

Verið getur, að mjer verði sýnt fram á það gagnstæða, en að svo stöddu get jeg ekki sjeð ástæðu til að gefa frv. atkvæði mitt.