14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Eggert Pálsson:

Eins og háttv. frsm. (G. Ó.) gat um í ræðu sinni var nefndin ekki öll á einu máli um það, hvað gera skyldi við frv. þetta, eins og því nú er komið, Jeg, sem minni hluti nefndarinnar, leit svo á, að ekki væri vert að láta málið stranda á þeim búningaskiftum, sem það hefir fengið í hv. Nd., því að það dylst ekki, þótt frv. þetta hafi alt aðra yfirskrift en það frv., sem hjeðan fór, þá er efnið í sjálfu sjer hið sama. Munurinn er að eins sá, að frv. þetta gengur lengra í þá átt að leggja ekki vegna sveitarskuldar hömlum á menn með að ganga í hjónaband, þar sem hömlur voru nokkrar í hinu frv.

Eins og gefur að skilja þá er það frá mínu sjónarmiði svo, að þótt þetta frv. gangi lengra í þá átt, sem fyrir mjer vakti sem flm. hins frv., þá er það langt frá því að vera galli í mínum augum. Jeg lít þess vegna svo á, að úr því að svo er komið, að frv. þetta hefir breytt formi, þá beri engu síður að samþykkja það. Jeg álít ekki heldur, að hjer sje nein hætta á ferðum, þó að frv. verði samþykt, því að það er vitanlega ekki á neinn hátt hægt að hindra það, að persónur geti ekki hlaðið niður ómegð, hreppsfjelögum sínum til þyngsla, þótt þær sjeu ekki giftar, og jeg get ekki heldur sjeð, að þótt persónum sje leyft að ganga í hjónaband, þótt þau standi í sveitarskuld, að það geti komið þyngra niður á eitt sveitarfjelag en annað. Það gengur alt á víxl, svo að ómögulegt er að segja fyrirfram, hvert tapi meiru eða græði við breytinguna. Fyrir mitt leyti get jeg því ekki lagt mikið upp úr þeim breytingum, sem frv. hefir tekið, enda er öllum háttv. þm. það ljóst, að þessar breytingar, sem frv. hefir fengið, eru þær sömu, sem hæstv. forsætisráðherra drap á í upphafi málsins hjer, sem eðlilegustu leiðina, að gera ekki sveitarskuld að neinni hindrun fyrir því, að menn geti gengið í hjónaband. Jeg hallast því fremur að því að afgera þetta mál á þeim grundvelli, sem hjer liggur fyrir, en að þvæla því til næsta þings og láta stjórnina hafa það með höndum og láta það aftur ganga í gegnum báðar þingdeildir á næsta þingi. Enda býst jeg ekki við, að þeir, sem vísa vilja frv. til stjórnarinnar, muni neitt á því græða, því að það dylst eigi, að eftir því, sem hæstv. forsætisráðherra ljet í ljós við 1. umr. málsins, myndi útkoman verða hin sama. Það er ekki annað líklegt en að þetta mál, sem heyrir aðallega undir hann, yrði, svo framarlega sem stjórnin skifti sjer nokkuð af því, í sama formi og það liggur nú fyrir, svo að ekkert mundi þannig græðast við biðina eða dráttinn.