14.09.1917
Efri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

106. mál, breyting á tilskipun og fátækralögum

Magnús Torfason:

Eins og hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) hefir tekið fram þá hefi jeg verið því frekar fylgjandi, að þetta mál verði ekki látið ganga fram á þessu þingi. Ástæðan til þess er sú, að hjer er eiginlega algerlega nýtt frv. komið fram um algerlega nýtt efni. Upphaflega frv. var um það að draga úr ábyrgð presta, en þetta frv. er um það að breyta fátækralöggjöfinni, og við vitum það sjálfsagt allir, að það eru talsvert skiftar skoðanir um það í landinu, hvort rjett sje að nema þetta ákvæði burt.

Jeg skal nú játa það, að jeg hallast heldur að því, að rjettara sje að breyta þessu ákvæði; en jeg lít svo á, að þar sem þessi breyting getur snert hvert einasta hreppsfjelag á landinu, þá sje ekki rjett að hraða málinu af á þessu þingi, og það sjerstaklega vegna þess, að málið hefir ekki fengið neinn undirbúning, og síst rjettan undirbúning. Frumvarpið, eins og það var í upphafi, átti heima í mentamálanefnd, en eins og það nú er orðið á það að athugast í allsherjarnefnd, en það hefir ekki verið gert, og þess vegna ekki sætt þeirri meðferð, sem þingsköp krefja. Því hallast jeg að till. háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), að vísa málinu til stjórnarinnar að þessu sinni.