01.08.1917
Efri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

118. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg skal geta þess, að ekki svo fáar málaleitanir hafa borist landsstjórninni í vetur um styrk til þess að flytja inn og kaupa ýms áhöld til landbúnaðar. Stjórnin hefir venjulega vísað þessum málaleitunum til álits Búnaðarfjelagsins, og það hefir mælt með sumum þeirra, en engu svarað um aðrar. Jeg tel ekki hyggilegt að segja ætíð nei við slíkum beiðnum, eða að koma fram með fjárveitingu til þess háttar tilrauna í fjárlagafrv. Hitt álít jeg miklu hentugra, að Búnaðarfjelagið hafi tilraunirnar með höndum. En það vantar fje til þeirra. Nú hefir það vísað á fjeð; það verður að vísu af skornum skamti, en þó skárra en ekki neitt. Jeg vil þess vegna mælast til, að frv. verði tekið til athugunar og samþ í ekki lakara formi en það er nú.