10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1930 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

118. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Nefndin hefir ekki klofnað í þessu máli. Hún hefir orðið sammála um það, að frv. eigi að ná fram að ganga, og hún hefir einnig orðið sammála um eina litla brtt. Eins og jeg gat um við 1. umr. er einasti agnúinn við frv., saman borið við núgildandi lög, að með því að leggja þessa byrði — kaup og reynslu á dýrum verkfærum — á Ræktunarsjóðinn, þá hlýtur það að draga úr verðlaununum til bænda fyrir unnar jarðabætur, í alt fall öðru hvoru, en þar sem styrkur til lífsábyrgðakaupa hlýtur að gera það sama, ef nokkuð verulegt af fje er notað í því skyni, þá er það að afnema þessa kvöð af sjóðnum nokkuð í áttina til þess að vega upp á móti verkfærafjenu. Annars mun nú fje sjóðsins fremur lítið hafa verið notað í þessu skyni, og bendir það á, að þetta í lögunum sje ekki mjög nauðsynlegt, enda þýðingarlaust að veita manni styrk til að greiða líftryggingariðgjald í fyrsta sinni. Það hlýtur ávalt að vera svolítil upphæð, að engu nemi, en getur dregið sig saman fyrir sjóðinn, ef margir óska slíks styrks. Ef menn geta ekki greitt fyrsta iðgjaldið og hafa ekki það lánstraust, að þeir geti fengið upphæðina að láni, þá myndu þeir ekki heldur geta haldið iðgjaldagreiðslunni áfram eftirleiðis. Einnig gætu menn veðsett lífsábyrgðarskírteinið Ræktunarsjóðnum, hvar eða hvernig sem menn hafa fengið peningana til borgunar fyrsta iðgjaldsins.

Af þessum ástæðum treysti jeg því, að háttv. deild fallist á þessa litlu breytingu. Nefndinni er það ekkert kappsmál, en hyggur brtt. heldur til bóta. Nefndin vonar og, að frv. nái fram að ganga.