15.08.1917
Efri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

128. mál, stofnun landsbanka

Hannes Hafstein:

Jeg hefi ritað undir nefndarálitið með fyrirvara, því að jeg hefi verið nokkuð hikandi við, hvort jeg ætti að fylgjast með samnefndarmönnum mínum, og álitið, að ef til vill mundi rjettast vera að fresta málinu um hríð. Jeg vildi þó ná tali af flokki þeim, sem jeg fylgi að málum, áður en jeg afrjeði nokkuð í þessu efni. En málinu hefir verið hraðað svo mikið, að mjer hefir ekki unnist tími til þess. Og fylgi mitt við frv. hefir frá upphafi verið bundið því skilyrði, að gæslustjórarnir, sem nú eru, yrðu ekki reknir frá.

Jeg hefi nú hugsað málið nokkuð frekar og sömuleiðis haft tal af ýmsum þingdeildarmönnum, sem jeg met mikils, um þetta mál, og hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að rjettast sje að vera algerlega á móti frv. Jeg álít rjett að fresta málinu og geyma það þangað til hægt verður að taka það til ítarlegrar meðferðar.