24.08.1917
Efri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

128. mál, stofnun landsbanka

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vildi með nokkrum orðum minnast á ákvæðið um hinn lögfróða bankastjóra. Með því að það skilyrði sje sett, þá sparast lögfræðilegur ráðunautur fyrir bankann, og í sambandi við þetta vil jeg benda á það, að mjer fyndist það mjög eðlilegt, ef það sýndi sig, að val þetta hefði hepnast vel, að laun hins lögfróða bankastjóra yrðu hækkuð á sínum tíma, því að jeg get ekki sjeð, að það sje beinlínis nauðsynlegt, að allir bankastjórarnir hafi sömu laun. Mjer fyndist rjett, að sá þeirra, sem hefði ábyrgðarmesta starfið, hefði hæst laun. En annars finst mjer, að þessi laun geti dugað þar til á næsta þingi, ekki síst ef það verður á næsta ári. Þá má líta á, hvernig lánast hefir með bankastjórnina, sem þá er orðin. Ef endilega á að fara að hækka launin strax, má ske af því, að maður þekkir einn manninn, sem við stjórninni tekur, þá er það að segja, að jeg hefi ekki heyrt neitt lófaklapp yfir því, og þess vegna getur það ekki valdið því, að jeg finni ástæðu til að hækka laun hans, nje heldur hinna bankastjóranna.

Annars get jeg ekki komið saman þessari miklu ræðu háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um það, hvað bankinn hafi verið sveltur að fje og hve lítið fjármagn hann hafi haft, við þá einu tilraun hans, að auka útgjöldin til bankastjórnar, og eftir þessa útlistun á þeirri miklu sveltu, sem bankinn hefði orðið að þola, og rjett er, þá hefði átt að koma eitthvert ráð, sem sýndi fram á það, hvernig hægt væri að auka fjármagn bankans. En þetta er ekki ráðið, að baka honum 10000 kr. útgjöld til bankastjórnar, ef stofnunin getur ekkert vaxið við aukið fjármagn. Ef háttv. þm. Ísaf. (M. T.) eða annar jafngóður maður fyndi eitthvert ráð til þess að auka starfsfje bankans, svo að gróðinn yrði meiri, þá yrði líka meira til til þess að launa þá menn, sem í bankanum ynnu.