05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1989 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

128. mál, stofnun landsbanka

Einar Arnórsson:

Það eru að eins fáein atriði, sem jeg vildi minnast á, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K ) talaði um, og miðuðu að því að telja menn af að greiða þessu frv. atkv. sitt.

Það gleður mig, að háttv. þm. (B. K.) er nú aftur viðstaddur, því að þótt jeg hafi ekki ástæðu til að beina máli mínu persónulega að honum, þá eru þó nokkur atriði í málinu, sem snerta hann.

Á meðan jeg man vil jeg drepa á, að það kom fram dálítill misskilningur í ræðu hv. fram. (E. Árna.), sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) mintist á og leiðrjetti.

Hv. frsm. (E. Árna.) vildi halda, að bankanum sparaðist alveg lögfræðiaðstoð, ef einn bankastjórinn af þremur væri lögfræðingur. Það kemur eigi til mála, að bankastjórar sjálfir innheimti skuldir fyrir bankann eða flytji mál hans. Til þess þarf bankinn auðvitað sjerstakan lögfræðing, eins og hann hefir nú lengi haft. Öðru máli er að gegna um ýms önnur lögfræðiatriði, sem bankastjórnin þarf að gera út um. Þar getur sá bankastjóri, sem er lögfræðingur, ráðið þeim til lykta og á sína ábyrgð, í stað þess, að hingað til hefir bankastjórnin orðið að leita sjer slíkra ráða hjá ábyrgðarlausum mönnum að því leyti.

Það er rjett hjá háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að jeg hlýt að vera með þessu frv. nú, engu síður en því, sem jeg bar fram 1915. Mín skoðun hefir ekki breyst síðan. Og jeg tel þetta fyrirkomulag, sem hjer er til stofnað, heppilegra en það, sem nú er. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hafði það einkum út á frv. að setja þá, að óþarft væri að fjölga bankastjórum. Jeg man ekki, að hann bæri fram aðrar mótbárur þá. Þessi hætta, sem hann talar nú um, er því alveg ný af nálinni, sem sje hættan við það, að erfitt verði að fullnægja kröfum laganna um undirskrift bankastjórnar. Jeg get ekki sjeð, að nein hætta stafi af þessu því að þetta ákvæði, að tveir skuli undirskrifa af þremur, hefir altaf verið í lögum bankans, alt frá 1885 (24. gr. 1. 1885), að hann var stofnaður. En. þá voru bankastjórar að eins 3, það er að segja 1 bankastjóri og 2 gæslustjórar.

Mjer er að minsta kosti ekki kunnugt um, að þetta hafi valdið miklum vandræðum til þessa. Enda var það ekki þetta, sem kom til vegar breytingum 1909. Það er skemst á að minnast, að þá var samþ. frv. í Nd., sem gerði ráð fyrir, að bankastjórar væru 2, og þar að auki 1 lögfræðilegur ráðunautur. Ef jeg man rjett, þá hafði háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) ekkert við þetta að athuga þá. En svo þegar frv. 1909 kom til Ed., þá var því breytt þannig, að þessi lögfræðilegi ráðunautur var feldur burt, en aftur gæslustjórunum haldið. Þar sem nú þetta hefir haldist alt frá byrjun og fram til 1909, að bankastjóri væri 1 með 2 gæslustjórum, og 2 þyrftu að undirskrifa, þá get jeg ekki skilið, að af því geti stafað neinn voði, nú, fremur en þá. Jeg held að mjer sje óhætt að fullyrða, að þessi mótbára, um hættu af þessu, sje alveg ný. Að minsta kosti man jeg ekki eftir, að hún kæmi fram á þingi 1915. Jeg vona, að það komi ekki það fár í bankastjórnina nú, að háski geti af því stafað, þótt bankastjórar sjeu að eins 3.

Það er ekki gott að neita því, að það virðist hálfólögulegt fyrirkomulag, að þegar ágreiningur verður milli bankastjóra, þá eigi sá að ráða, sem hefir eldri gæslustjórann með sjer. Það er ekki rjett hjá hv. þm. G.-K. (B. K.), þar sem hann sagði, að það væri misskilningur hjá hv. frsm. (E. Árna.), að þetta gæti komið fyrir, því að lögin frá 1909 gera einmitt ráð fyrir, að þetta geti komið fyrir. Þar stendur í 4. gr. »Verði ágreiningur milli bankastjóra um eitthvert mál, er bankann varðar, skal atkvæði þess gæslustjórans, er fyr var kosinn, ráða úrslitum.« Hitt er annað mál, að jeg vil ekki segja, að þetta þurfi endilega að fara illa, en að eins finst mjer það ólögulegt.

Þá var eitt atriði enn hjá hv. sama þm. (B. K.), sem jeg vildi minnast á. Hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hjelt því fram, og það stendur auk þess í greinargerð við fyrstu brtt. hans, að bankastjórar hvers banka ráði alla sína starfsmenn og víki þeim frá. Hv. þm. (B. K.) sagði eitthvað á þessa leið, og að þetta væri jafneðlilegt eins og t. d. bændur rjeðu hjú sín. Þessu er nú því til að svara, að þó að það sje venja, að bændur ráði hjú sín, þá er hjer ekki líku saman að jafna. Bankastjórarnir eru fremur ráðsmenn en húsbændur. Það hlýtur að vera misskilningur hjá hv. þm. (B. K.), að þessu sje þannig farið í öllum bönkum. Með Landsbankann víkur þessu þannig við, að landsstjórnin og þingið kemur í staðinn fyrir það, sem annars er kallað bankaráð, en bankastjórar og gæslustjórar eru sem svarar til framkvæmdarstjóra.

Mjer er enn fremur kunnugt um, að í bönkum á Norðurlöndum eru það ekki framkvæmdarstjórar bankanna, sem skipa og víkja starfsmönnum frá. Fyrst nefni jeg Íslandsbanka. Samkvæmt 25. gr. reglugerðar hans þarf samþykki bankaráðs til að ráða og víkja frá bókara, fjehirði og útibússtjórum þessa banka. Framkvæmdarstjórnin er því alls eigi einráð í þessu efni.

Býst jeg við, að skipulag Íslandsbanka sje í þessu og fleiru lagað eftir skipulagi erlendra banka, t. d. Privatbankans í Kaupmannahöfn, sem aftur á sjer fyrirmyndir í öðrum löndum. Svo má nefna annan banka, sem margir hjer munu kannast við, sem sje Þjóðbankann danska. Þar er 15 manna ráð (Repræsentantskab). Þessir menn velja svo nokkra bankastjórana, en konungur nokkra. Nú er með lögum bankans frá 12. júní 1907 því svo fyrir komið með sekretera, gjaldkera og bókara bankans, að þeir eru hvorki ráðnir nje þeim vikið frá nema eftir ákvörðun framkvæmdarstjóra og bankaráðs í sameiningu, eða með öðrum orðum, það er 20 manna samráð um þessi atriði. Er því sjálfgefið, að þetta 15 manna ráð hefir tögl og hagldir, ef með þarf. Í »Norges Bank« er ekki ósvipað fyrirkomulag að þessu leyti. Þar er líka 15 manna ráð, kosið af stórþinginu og 5 »direktörar«. Og meðal þeirra starfa, sem í lögunum eru talin heyra undir bankaráðið, er að ákveða launakjör, ellistyrk og eftirlaun starfsmanna, sömuleiðis, eftir till. framkvæmdarstjóra og deildarstjóra þess, er hlut á að máli, að veita lausn og skipa þjóna bankans, og veita nauðsynleg erindisbrjef, enn fremur að jafna misklíðarefni milli þjóna og forstjóra bankans. Af þessu er ljóst, að það er ekki svo dæmalaust, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) virðist halda, að framkvæmdarstjórar ráði ekki óskorað alla starfsmenn bankans. (B. K.: Þeir gera það í raun og veru). Það er hægt að segja, en lögheimildin er þannig, og býst jeg ekki við, að háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) haldi því fram, að jeg skrökvi. Ef svo er, get jeg bent honum á lög Þjóðbankans norska frá 23. apríl 1892. Ef hann rengir mig, er velkomið að sýna honum lögin, því að þau eru hjer niðri. (B. K.: Jeg rengi þingmanninn ekki). Sama er að segja um lögin frá 12. júní 1907, er jeg nefndi áður, og konungsauglýsingu um staðfestingu á einkarjettindum Þjóðbankans danska frá 22. júlí 1908, 40. gr.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að kappræða um þetta atriði, en vildi geta þessa, til þess að sýna, að hjer er ekki farið fram á neitt, sem er dæmalaust eða talið fjarstæða annarsstaðar.

Jeg býst ekki við að taka aftur til máls um þetta mál. Þar sem háttv. 1. þm. G.-K.

(B. K.) hefir tekið brtt. sínar aftur, er ekki ástæða til að ræða þær. Sumar þeirra eru vafalaust vel hugsaðar og fluttar í góðri meiningu, svo sem till. um ellistyrk til starfsmanna bankans og fleiri till., en koma ekki hjer til umræðu nje atkvæða, fyrst að þær eru teknar aftur.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K) spurði, hvar ætti að taka borgun til settra bankastjóra. Því er auðsvarað. Þar um gilda sömu reglur og um setta starfsmenn yfir höfuð, nema sjerstakir samningar sjeu gerðir, og munu þær reglur vera í tilskipun frá 1836.

Eitt var það, sem sami háttv. þm. (B. K.) virtist una illa, sem sje það, að ekki eru tekin fram í frv. nein sjerstök skilyrði fyrir bankastjórana, nema þennan eina, að hann á að hafa lögfræðipróf. Í þeim bankalögum, er jeg þekki, er sumstaðar vikið að skilyrðunum. Í lögum Þjóðbankans danska er til dæmis gert ráð fyrir, að einn bankastjórinn sje »landbrugskyndig«. Þetta hefir ekki verið gert í öllum bankalögum, og ekki hefir þótt ástæða til þess hvað Íslandsbanka snertir. Er að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að skipaðir sjeu þeir hæfustu, sem í boði eru. Það er ólíklegt, að hv. 1. þm. G. K. (B. K.) telji þetta hættulegt, því að hann hlýtur að vera þeirrar skoðunar, að kjör bankastjóra Landsbankans hafi ekki mistekist svo hingað til. Það er eins og gengur, að ýmsir finna jafnan að öllum skipunum í stöður og embætti, en jeg geri ráð fyrir, að stjórnin hafi jafnan tekið þá menn, er hún taldi hæfasta. Og það er víst ekki heppilegt að binda veitinguna jafnströngum skilyrðum og háttv. þm. (B. K.) vill gera í brtt. (B. K.: Þetta gera Frakkar) Já, en það sannar ekkert. Jeg vona, að mjer fyrirgefist, þótt jeg minnist á 1. lið brtt., sem búið er að taka aftur. Þar hefir háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) tekið upp einn lögfræðing, en hinir tveir skulu vera viðskiftafróðir verslunarmenn og hafa að minsta kosti 10 ár gegnt verslunarstarfa. Jeg neita ekki, að það sje að öðru jöfnu kostur, en finst þetta ákvæði hins vegar altof strangt, sumpart vegna þess, að margir góðir verslunarmenn eru algerlega óhæfir bankastjórar, og í öðru lagi er hart að útloka þá menn, sem hafa ekki verið við verslun, en öllum vitanlega eru manna kunnugastir viðskiftalífi. Það væri til dæmis hart að útiloka hagstofustjórann okkar, en hann væri útilokaður, ef þess væri krafist, að bankastjórinn yrði að hafa verið við verslun eða fengist við »praktiska« starfsemi í banka.

Jeg held, að jeg þurfi svo ekki fleiri orð. Eins og nefndarálitið ber með sjer hlýt jeg að greiða frv. atkvæði mitt, er jeg sjálfur hefi borið fram. Aðalbreytingin er sú, að stjórnarráðið alt, eða 3 ráðherrarnir, skipa bankastjórana og víkja frá. Frá mínu sjónarmiði er þetta enginn ókostur á frv., heldur kann ske fremur kostur.