05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

128. mál, stofnun landsbanka

Einar Arnórsson:

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) tók það fram, til andmæla frv., að samkvæmt lögum 1909 mætti gjaldkeri bankans ekki greiða fje út úr bankanum nema 2 bankastjórarnir samþyktu það. Ef því annar forfallaðist, þá gæti svo farið, að ekki væri unt að halda bankanum opnum.

Þetta er nú ekki rjett, nema að nokkru leyti, því að samkvæmt bankalögunum frá 1885 var ætlast til, að ekki væri greitt fje úr bankanum nema með samþykki bankastjórans, sem þá var ekki nema einn, en 1909 var bankastjórunum fjölgað, og þurfti þá vitanlega samþykki þeirra beggja til þess, að fjárgreiðsla væri lögmæt. En ef nú annar þessara bankastjóra forfallast, þá verður vitanlega að fara eins að og samkvæmt lögunum 1885, að setja annan mann í hans stað. En verði nú þetta frv. samþykt, þá þarf ekki þessa með, því að þá verða þó altaf tveir eftir, ef einn forfallast.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) talaði um, að hann hefði heyrt fregnir um það alla leið vestur á Ísafjörð, að þetta frv. væri fram komið í þeim tilgangi að útvega vissum manni stöðu.

Jeg hefi nú ekkert um þetta heyrt áður, en þótt jeg hefði eitthvað um þetta heyrt, þá mundi jeg samt ekki láta neinn orðróm fæla mig frá sannfæringu minni, en hún er sú, að bráðnauðsynlegt sje að koma þessari breytingu á hið allra fyrsta.

Jeg er mjög hræddur um, að það yrði nokkuð langt þangað til þessi breyting kæmist á, ef hún ætti að bíða eftir því, að bankastjórnin æskti eftir henni. Annars er mjer þessi röksemdafærsla ekki fyllilega skiljanleg. Fyrir nokkrum árum var lagt niður landshöfðingjaembættið og sömuleiðis bæði amtmannsembættin. Mjer er ekki kunnugt um, að þessir menn hafi fengið að gera tillögur um það, hvort sú breyting skyldi fram fara eða ekki. Og jeg sje enga ástæðu til að gera bankastjórunum hærra undir höfði. Enda var stjórn Landsbankans 1909 alls eigi spurð um breytinguna, sem þá var gerð á stjórn bankans, og alls eigi var sú breyting samkvæm óskum hennar. En auk þess horfði þetta mál svo einkennilega við, þegar það var fyrst borið upp, að þá voru báðir bankastjórarnir settir og annar gæslustjórinn líka.