07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2008 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

128. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg skal ekki vera langorður um þetta mál, því að jeg tel að sjálfsögðu óþarft að ræða það nú. En jeg get þó ekki annað en minst á nokkur atriði í síðustu ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.). Það virtist kenna hjá honum töluverðs misskilnings á því, sem jeg sagði við 2. umr. þessa máls um kyrstöðuna í bankanum. Jeg tók það fram þá, að það væri kyrstöðufyrirkomulag, við hvaða stofnun sem væri, ef stjórnin gæti skifst í 2 jafna hluta. Jeg tók það líka skýrt fram, að gróði Landsbankans og umsetning hefði aukist mikið, og því voru tölur þær, er háttv. þm. (B. K.) las upp, óþarfar. Það er ekkert undarlegt, þótt viðskifti Landsbankans hafi aukist, þegar á það er litið, að sparisjóðsfje hefir aukist um margar miljónir, en það, að sparisjóðsfje hefir safnast þarna, get jeg ekki sjeð að sje að þakka bankastjórunum. Það mætti líka fyr vera andhælisleg stjórn, sem ekki gæti látið umsetning bankans vaxa við það stórfje, sem almenningur hefir lagt þar inn. Hins vegar hrakti háttv. þm. (B. K.) það ekki, að kyrstöðufyrirkomulag væri út á við. En það var einmitt það atriði, sem jeg lagði áherslu á um daginn, að sambönd og viðskifti bankans erlendis þyrftu að verða betri. Jeg get ekki skilið, hvernig á því stendur, að háttv. þm. (B. K.) er svo mikið á mótí fjölgun bankastjóranna. (B. K.: Ekki fjölgun, heldur fækkun). Þetta er rangt hjá háttv. þm. (B. K.). Hann ætti að þekkja svo lögin frá 1909, að hann gæti gert mun á bankastjórum og bankastjórn. Hann hefir ekki heldur fært nein rök fyrir því, að það yrði breyting til þess lakara, sem ekki er heldur von. Þegar litið er á lögin frá 1909, þá er þar skýrt tekið fram, að 2 bankastjórar þurfi að skrifa undir, en hjer er verið að fara fram á, að bankastjórarnir skuli vera 3, og því undarlegra er þetta, þegar þess er gætt, að þessi sami hv. þm. (B. K.) hafði hugsað sjer að bera fram frv. á þessu þingi um að hafa bankastjórana 3, en hætti svo við það, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Það, sem hann var að víkja til bænda, finst mjer tæplega viðeigandi, því að það voru ekki bændur, sem báru frv. inn í þingið, heldur 2 sýslumenn, og hvað viðvíkur afgreiðslu málsins í Ed., þá voru það ekki bændur, sem hjeldu því uppi þar. (B. K.: En hjer í deildinni?). Ef þetta á að skiljast sem ásökun til bænda hjer í deildinni, þá kemur hún úr hörðustu átt, þar sem allir fylgismenn hans í þessu máli hjer eru bændur. En það skal játað, að liðið er fáment. Það er annars undarlegt, ef bændur mega ekki hafa sannfæringu í þessu máli sem öðrum. Jeg skal ekkert segja um það, en jeg býst við, að bændur noti það af því, sem þeim þykir nýtilegt, en sleppi hinu fram hjá sjer. Hinar skáldlegu líkingar hans um fjallaloft og sveitasælu sje jeg ekki að komi þessu máli við. En það verð jeg að segja, að ef hið andlega loft Reykjavíkur er svo spilt, að sveitamenn, sem þangað koma, mannskemmast á fáum dögum, hvað má þá ætla um þá, sem hafa alið þar mestan sinn aldur?