07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

128. mál, stofnun landsbanka

Björn Kristjánsson:

Það getur vel verið, að jeg hafi misskilið háttv. frsm.

(E. Árna.) eitthvað, en jeg held þó helst, að jeg hafi ekki gert það, því að það hlýtur að vera kyrstaða í störfum, ef það er kyrstaða út á við. Hann hefir nú játað, að það hafi ekki verið kyrstaða í bankanum, en hann sagði, að það væri ekki stjórninni að þakka, heldur hefðu peningarnir komið sjálfir, og getur það vel verið, því að jeg ætla ekki að fara að draga mjer meiri heiður en háttv. þm. vilja gefa okkur bankastjórunum.

Jeg er ekki á móti því að hafa þrjá bankastjóra, en jeg er á móti því að fækka mönnum í bankastjórninni, því að það hlýtur að leiða til þess, að hún verði ekki starfshæf, og það hefi jeg altaf verið að prjedika hjer, án þess að menn hafi skilið það. Jeg hefi skýrt frá því, að það er oft erfitt að ná undirskriftum tveggja bankastjóranna samtímis; en háttv. deild hefir ekki tekið tillit til þess. Jeg hefði getað búist við, að nefndin hefði athugað þetta til 3.

umr. og bætt úr því, með því að heimila t. d. bókara að skrifa undir. Þetta hefi jeg bent á, en því hefir ekki verið sint. Eins spurði jeg um það við 2. umræðu, hvernig nefndin ætlaðist til, að settum bankastjóra yrði borgað, og var svarað því af mjög lögfróðum manni, að það færi eftir almennum reglum, eða með öðrum orðum, að það yrði tekið af launum þess bankastjórans, sem fjarverandi er. Ef bankastjórinn siglir í þarfir bankans, þá verður hann eftir því að láta laun sín ganga til þess, sem settur er í hans stað. Svona ætlar þingið að skilja við þetta mál. Það er laust við, að jeg hafi nokkuð á móti því, að bændur fylgi sannfæringu sinni á þingi. Jeg vildi bara óska, að þeir gætu það, því að ef þeir gerðu það, þá færi alt betur en fer.