13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

139. mál, útmælingar lóða

Benedikt Sveinsson:

Jeg get ekki betur sjeð en að frv. þetta, á þgskj. 346, sje mjög athugavert, jafnvel þótt það komi frá Ed. og hafi náð þar fram að ganga. Og furðar mig á því, að þeir lögfræðingar, sem þar eiga sæti og hafa fjallað um þetta mál, skuli ekki hafa gengið betur frá því en raun hefir á orðið. Það mun stappa nærri því, að frv. brjóti í bága við 50. grein stjórnarskrárinnar frá 5. jan. 1874; svo nærri gengur það eignarrjetti manna.

Frumvarp þetta er að vísu sniðið eftir lögum frá 13. mars 1891 og svipað að orðalagi, en það er aðgætandi, að sú heimild, sem þar var gefin fyrir menn til þess að fá útmældar lóðir í kaupstöðum og kauptúnum, til afnota við verslun, er miðuð við »almenningsheill«; heimildin til þess að fá verslunarlóð er gefin til að koma í veg fyrir, að ein einstök verslun eða svo geti verið einvöld í kaupstað eða kauptúni, þar sem hún kann að hafa náð undir sig öllum lóðum, sem hæfar eru til verslunar, bægt öðrum frá að setjast þar að, og þannig haft í frammi fullkomna einokun við alla þá, er þangað sækja verslun. Og hafa slíks verið mörg dæmi fyrrum hjer í landi. Þar sem svo stóð á, var það almenningsheill, heill alþýðunnar, er verslun sótti til staðarins, að þar væri hverjum heimilt að setjast að til þess að reka verslun. Á þennan hátt styðjast lögin frá 13. mars 1891 við undantekninguna í 50. gr. stjórnarskrárinnar. Þar sem ræða er um almenningsheill í sambandi við þau lög, þá er þar ekki átt við hag þeirra fáu einstaklinga, sem kunna að græða á því að fá rjett til þess að taka lóð og setjast að til að versla, heldur miklu fremur hag almennings, sem batnar við það, að frjáls samkepni geti átt sjer stað í versluninni. Þó hafði verið mjórra muna vant, að þau lög strönduðu einmitt á því, að dönskum stjórnarvöldum, er þá rjeðu, þótti þau nærgöngul 50. gr. stjórnarskrárinnar.

En um frv. það, er hjer liggur fyrir, er þó alt öðru máli að gegna. Þegar svo langt er gengið, eins og hjer á sjer stað, að mönnum er gert heimilt að nema lönd annara til að reka iðnað á, eða fást við sjávarútveg í sjálfs sín þarfir, þá get jeg ekki með mínum besta vilja sjeð, að það miði að sjálfsögðu til almenningsheilla. Jeg hefi og hvergi orðið þess var, að almennar óskir hafi komið fram um slíka löggjöf sem þessa. Málið er gersamlega órætt meðal þjóðarinnar.

Það getur trauðla verið mjög til almenningsheilla að veita einhverjum Sörensen rjett til þess að helga sjer eign annars manns, að honum nauðugum, til þess að setja þar upp vindlagerð, brjóstsykurgerð eða einhvern ámóta þarflegan atvinnurekstur. En á hinn bóginn gæti það verið mjög handhægt þeim, er vildi ná sjer í lóðarskika, að hafa eitthvert þvílíkt »iðnaðarfyrirtæki« að skálkaskjóli, til þess að fá aðstoð stjórnarvaldanna til landnámsins.

Þetta hefir þó ekki vakað fyrir háttv. sjávarútvegsnefnd Ed., er kom frv. á flot, heldur er það borið fram vegna einhverra útgerðarmanna, er ætla sjer að hagnast á þessari lagasmíð. Það er nú kunnugt af blöðunum, að óánægja hefir verið meðal einhverra útgerðarmanna út af kjörum þeim, er þeir hafa sætt í veiðistöð einni hjer í grend, Sandgerði. Hefir verið kvartað um, að eigendur veiðistöðvarinnar settu útróðrarmönnum hörð skilyrði, áskildu sjer kaup á allri lifur lægra verði en annarsstaðar fengist, tækju háan hlut fyrir uppsátur og húslán

o. s. frv. Ef slíkar sögur væru sannar, þá þyrfti bót á að ráða.

En nú vill einmitt svo vel til, að hjer er á ferðinni annað frv., á þgskj. 141, um »heimild fyrir stjórnina til að setja reglugerðir um notkun hafna«, og tekur það frv. berum orðum fyrir alla þá misbeiting, sem nefndarmenn hafa viljað hnekkja og komið hefir þeim til að bera fram frv., sem nú er til umræðu. Þetta nýja frv. er því gersamlega óþarft og ástæðulaust, þegar hitt er fram komið.

Mörgum kann nú reyndar að sýnast þetta frv. meinlaust í fljótu bragði, en ef það er vel íhugað, þá hygg jeg, að þeim verði ljóst, að það muni geta dregið óþægilegan dilk á eftir sjer. Skil jeg ekki í öðru en að mörgum lóðareiganda þætti þungt undir að búa að vera sviftur þeim rjetti, er 50. gr. stj.skr. veitir honum. Ef hann á lóð, sem hann notar eigi sjálfur í svip, eða getur ekki notað, sakir hnekkis þess, er styrjöldin veldur, þá getur Pjetur eða Páll komið og slegið eign sinni á lóðina eða fengið yfirráð hennar, hvað sem líður vilja eigandans eða fyrirætlunum hans um notkun hennar í framtíðinni. Aðskotadýrið þykist þurfa hennar til iðnaðar eða útvegs, og það er nóg. Eigandinn er rjettlaus, þótt hann sjálfur ætli sjer að hagnýta lóðina við fyrsta tækifæri. Ekki bætir það hag hans, hversu um leiguskilmálana er búið. Þar skal farið eftir geðþótta þriggja manna, ef aðiljar verða ekki ásáttir. Þetta ákvæði er að vísu hið sama sem í lögunum um útmæling lóða í kauptúnum og kaupstöðum, en þar sem þetta frv. er langtum víðtækara en lögin, þá verður ákvæðið hjer þeim mun skaðlegra og ranglátara. Það virðist næsta hart og ótilhlýðilegt að þurfa að hlíta fyrstu gerð þessara matsmanna og vera fyrirmunað að fá yfirmat, sem þó er oftast venja, þegar líkt stendur á.

Ónákvæmt er það til orða tekið, er frv. mælir svo fyrir, að »þeir, sem eiga stórar lóðir í kaupstöðum«, skuli skyldir að láta þær af hendi við aðra, á þann hátt, sem til er tekið. Hvað er stór lóð? Hver á að dæma um það? Eiga menn að vera háðir geðþótta þeirra, sem heimta lóðina, þar sem svo er fyrir mælt, að þeir fái það útmælt, sem þörf þykir. Það er ekkert tekið fram um það, hvort það sje sá, er biður um lóðina, eða matsmennirnir, sem eigi að ráða þessu. — Virðist þá helst svo að skilja, að það sje umbiðjandinn, því að hjer er ger breyting frá því, sem ákveðið er í lögunum frá 13. mars 1891. Þar stendur svo í 2. gr.:

»Bæði þeir, sem eiga lóðina . . ., og aðrir, er lögmæt rjettindi hafa eignast yfir landinu eða lóðunum, eru skyldir að láta af hendi . . . svo mikla óbygða lóð, sem útmælendum þykir þörf á o. s. frv.« En í 2. gr. þessa frv. er ger sú breyting á þessu, að útmælendum er ekki fengið valdið til að ákveða lóðarstærðina, heldur fær umsækjandi svo stóra lóð, »sem þörf þykir«. — Bendir breytingin ótvírætt á, að þetta eigi að vera komið undir vilja og áliti umsækjandans, og er þetta enn eitt, sem horfir til stórskemdar á ákvæðum gömlu laganna.

Þá sýnist mjer, að háttv. sjávarútvegsnefnd Ed. hafi mistekist við síðari málsgrein 2. gr. frv., sem er svo hljóðandi:

»Rjett á lóðareigandi til, að ársleigan eftir lóð hans sje metin á ný, á 25 ára fresti, eða um hana samið«. Þó viðurkennir nefndin í greinargerð sinni fyrir frv., »að jafnframt þyki sanngjarnt, að ársleigu eftir lóðina megi meta á ný á nokkurra ára fresti, þar sem verð á leigu á lóðum geti verið háð miklum breytingum«, og er það hverju orði sannara. En hví tekur hún þá ekki til skemra tímabil? Það getur orðið óhagkvæmt fyrir báða aðilja, að ekki skuli metin leigan nema á 25 ára fresti, sem er því nær heill mannsaldur. Setjum t. d. svo, að nú vilji maður fá sjer lóð í fiskiveri, sem er í miklum uppgangi, og gjaldi eftir hana háa leigu, en ef svo alt fer í niðurníðslu eftir nokkur ár, þá verður hann eftir sem áður að borga þessa háu leigu, þangað til 25 ár eru liðin.

Á hinn bóginn gæti og staðið svo á, að menn gætu náð lóðum gegn mjög lágri leigu í nýju fiskiveri, en svo kæmist verið í mesta uppgang, og væri þá ósanngjarnt, að eigandi þyrfti að hlíta hinu lága gjaldi í heilan fjórðung aldar. Þar sem nefndin viðurkennir þetta og telur rjett að meta lóðirnar »á nokkurra ára fresti«, þá hefði hún átt að ákveða, að matið skyldi gilda til 5 ára í senn eða svo. Hefði það verið sanni nær, og þarf að laga þetta, ef frv. á að ná fram að ganga. — Einnig er nauðsynlegt að ákveða, að yfirmat skuli fara fram um andvirði eða leigu lóðar, ef aðiljum líkar eigi gerð matsmannanna.

Ýmsa galla frv. má auðvitað lagfæra í nefnd, en í heild sinni er frv. bygt á röngum grundvelli, þar sem það kemur í bága við 50. gr. stórnarskrárinnar og getur ekki stuðst við undantekninguna um »almenningsheill«, eins og lögin frá 1891. — Þar sem þessi lagasmíð er einnig algerlega óþörf, vegna rjettarbóta þeirra, sem koma fram í frv. um notkun hafna og vísan framgang eiga, þá er hið eina rjetta að fella frv.