22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (2037)

139. mál, útmælingar lóða

Framsm. (Einar Arnórsson):

Þetta frv. er komið frá háttv. Ed., og allsherjarnefnd hefir tekið það til athugunar. Eins og nefndarálitið ber með sjer leggur nefndin til, að frv. verði breytt töluvert.

1. aðalbreytingin á frv. er sú, að það ætlast til, að þeir fái einnig rjett til að fá útmælda lóð, sem þar ætla að reka iðnað. Þetta þótti nefndinni altof langt gengið, og leggur hún því til, að því verði breytt.

2. athugasemdin er sú, að lögum samkvæmt er ekki heimilt að reka fastaverslun í veiðistöð, sem ekki er löggiltur verslunarstaður. Af þessu leiðir, að breyta verður því ákvæði í frv., að menn geti krafist eignarnáms á lóðum til verslunar á þessum stöðum.

Aftur á móti fanst nefndinni rjett að veita útgerðarmönnum sama rjett til að fá útmældar lóðir í veiðistöðum til notkunar handa útvegi sínum sem lögin frá 13. mars 1891 veita verslunarmönnum í löggiltum kauptúnum.

Af þessum aðalbreytingum leiddi það, að breyta varð frv. öllu, og þótti nefndinni brotaminst að taka lögin frá 13. mars 1891 upp í frv., svo að þau falla úr gildi, ef þessar breytingar verða samþyktar.

Það varð ekki hjá því komist að gera breytingar á 4. og 5. gr. laganna, sem voru sjálfsagðar afleiðingar af aðalbreytingunum, og því ráðlegast að láta þau alveg falla úr gildi. Í lögunum frá 13. mars 1891 eru líka ýmsir forngripir, sem fullkomin ástæða er til að nema burt. Jeg geng annars út frá, að menn hafi lesið nefndarálitið, og sje því málið fyllilega ljóst.

Jeg sje því enga ástæðu til að fara fleirum orðum um það að sinni, en vona, að það geti fengið að halda leiðar sinnar.