01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

139. mál, útmælingar lóða

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg er samdóma hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) um, að breytingar þær, sem gerðar hafa verið á frv., sjeu til mikilla bóta. En þó verð jeg að taka í sama strenginn sem hv. þm. N. Þ. (B. Sv.), að rjettara sje að hugsa málið betur og láta það ekki ganga fram á þessu þingi. Það er óhætt að segja, að frv. gengur fullnærri stjórnarskránni, og þótt jeg þori ekki að fara eins langt og háttv. þm. Dala. (B. J.), er telur það vera fullkomið stjórnarskrárbrot, þá verð jeg að segja, að það er mjög á takmörkunum.

Jeg viðurkenni það nú sem fyr, að eitthvað þarf að gera til að tryggja útgerðarmönnum, svo sem unt er, að þeir geti stundað útveg sinn á hagkvæmum stöðum.

Það hefir þótt ástæða til að undanskilja Reykjavík í frv. þessu, og eins er í lögunum frá 13. mars 1891. Jeg gæti trúað því, að nú væri orðið svipað ástatt í sumum af hinum kaupstöðunum eins og var í Reykjavík um 1890, og væri vert að athuga það, hvort eigi mundi rjett að undanskilja þá frá ákvæðum frv. þessa. Enn er eitt að athuga við frv. þetta. Stefna þess gengur mjög í öfuga átt við stefnu flokks eins hjer á landi, sem vill, að lönd og lóðir, einkum í kauptúnum, sjeu ekki í eign einstakra manna, heldur bæjarfjelaganna eða þjóðfjelagsins. Þetta frv. brýtur beint bág við þá skoðun, því að mjer skilst svo, sem eftir þessu frv. sje hægt að fá lóðir, hvort heldur er til eignar eða á leigu. (E. A.; Það á að fara eftir því, sem sá kýs, er lóðin er tekin af). Það getur að minsta kosti vel verið, að sá, sem lóð er tekin af, vilji heldur láta hana af hendi til sölu en til leigu, ef hann er sviftur umráðarjetti yfir henni, þótt bæjarfjelagið vilji ekki, að hún sje seld. (E. A.: Bæjarfjelagið gerir út um það). Mjer skilst, að það komi ekki fram í frv. Jeg skal ekki neita því, að eitthvað kunni að vera ábótavant í þessum efnum, eins og nú er, en það er þó sjálfsagt ekki svo mikið, að málið megi ekki bíða til næsta þings til betri athugunar. Mundi jeg greiða atkvæði með hinni rökstuddu dagskrá að efninu til, en get það ekki vel, af því að hún fer fram á, að málinu sje vísað til stjórnarinnar.