01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

139. mál, útmælingar lóða

Frsm (Einar Arnórsson):

Það eru að eins örfá orð. Jeg ætla ekki að fara að karpa við háttv. þm Dala. (B. J.) um skilning hans á stjórnarskránni, því að það vita allir, sem hafa þefað í lög, að ekki þarf sjerstök lög í hvert einstakt skifti, og þótt yfirlögfræðingur deildarinnar, háttv. þm. Dala. (B. J.), segi annað, held jeg minni skoðun. Það væri sæmileg niðurstaða, sem maður kæmist að, ef setja ætti sjerstök lög í hverju einstöku tilfelli. Það hafa gengið hjer í gegnum deildina frv. til laga um áveitu á Flóann, og það voru almenn heimildarlög um lögnám, sem hv. þm. Dala. (B. J.) var samþykkur. Honum hefir alveg láðst að geta þess þá, að það þyrfti sjerstök lög til þess að expropriera hvert einstakt kot í Flóanum. (B. J.: Þetta er alveg eins hugsað og af manni úr Flóanum). En hv. þm. Dala.

(B. J.) stendur það neðar að hugsun en maður úr Flóanum, að hann getur ekki skilið þetta. Vegalögin, símalögin og fossalögin eru líka öll almenn heimildarlög, og svona mætti lengi halda áfram á sama hátt. Jeg skal vera samþykkur háttv. þm. Dala. (B. J.) í því, að þótt einhver hafi sagt eitthvað áður, þá eigi maður ekki að »jurare in verba magistri«, en það hefir þó verið venja dómstóla, stjórnar og þings, frá því 1849 í Danmörku og 1874 hjer, að taka tilit til þess skilnings, sem áður hefir verið lagður í stjórnarskrána og grundvallarlögin. Það er hæpið að gera svo lítið úr skilningi allra þeirra, sem »stúderað« hafa stjórnarskrána, að hann hafi aldrei verið rjettur. Við höfum líka ákvæði í stjórnarskránni, að ekki megi selja jarðeignir þess opinbera nema með sjerstökum lögum. Nú er þó búið að selja margar þeirra eftir almennum heimildarlögum. Hvers vegna girti háttv. þm. Dala. (B. J.) sig ekki í brækur og reis upp á afturfæturna til að mótmæla þessu sem stjórnarskrárbroti, í stað þess að skrifa undir nefndarálit um þetta mál 1915? (B. J.: Jeg beið eftir lögfræðingunum). Ef hann hefir verið þessarar skoðunar 1915, hefði hann átt að leggja til þá, að hin almennu heimildarlög um sölu þjóðjarða væru numin úr gildi. Þetta hefir víst bara verið fyndni eða gaman hjá honum áðan, því að nú hefir hann, háttv. þm. Dala. (B. J.), setið við góðan orðstír á þingi síðan 1909, en aldrei hugkvæmst þetta fyr.