30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg vil taka undir það með háttv. þm. Ak. (M. K.), að till. er ekki svo ljóst orðuð, að sjeð verði, hvort átt er við betri rannsókn á bátahöfn, eða hvort meira er haft í huga. Eins og till. er orðuð er nær að álíta, að átt sje við hafskipahöfn. Deildinni mun kunnugt, að skoðun á hafnarstæðinu hefir farið fram og verið framkvæmd af verkfróðum manni. Og þar sem nú er farið fram á betri og ítarlegri rannsókn, liggur nær að halda, að átt sje við hafskipahöfn. Bæði af þessu og af öðrum umræðum um málið sjest, að fyrir mörgum vakir, að hægt sje að gera þarna hafskipahöfn með kleifum kostnaði. En þar sem till. liggur ekki ljósara fyrir, vil jeg styðja það, að henni sje vísað til nefndar, og þá eðlilega til sjávarútvegsnefndar, og geri jeg það að till. minni. Getur nefndin þá borið sig saman við flm. till. í Nd.