11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Forsætisráðherra (J. M.):

Það má vel vera, að það sje rjett, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði, að óljóst sje um sambandið milli landsstjórnarinnar og ýmsra skóla hjer í landi, og tillag til þeirra úr landssjóði svo mikið, saman borið við allan rekstrarkostnaðinn, að rjettara væri, að þeir væru að öllu kostaðir af landssjóði og undir fullri umsjón landsstjórnarinnar. Líklega er svo að minsta kosti um Flensborgarskóla, því að þótt hinu upprunalega gjafafje hafi ekki verið eytt, þá er rekstrarkostnaður hans nú orðinn svo mikill, að þess gætir lítið, til þess að standast hann. Það er eðlilegt, að Flensborgarskólinn þurfi meira nú í dýrtíðinni en áður, og er ekki mikið um það að segja. Það væri ekki óeðlilegt, þótt einn alþýðuskóli, kostaður af landsfje, væri á Suðurlandi, þegar nú er verið að vinna að því að koma upp slíkum skóla á Austurlandi, og er síst að jeg sje á móti því. Auðvitað má búast við, að krafa komi enn frá einum landsfjórðungi, Vestfirðingafjórðungi, um samskonar skóla, og tel jeg sanngjarnt, að henni verði fullnægt á sínum tíma, en svo verði numið staðar við það fyrst um sinn. Nokkru öðru máli getur verið að gegna um kvennaskóla, en þó get jeg ímyndað mjer, að landið taki og að sjer rekstur þeirra síðar meir. Mjer sýnist þingið annars hafa veitt þannig fje vegna dýrtíðarinnar, að ekki sje ástæða til að draga úr fjárstyrk þeim, sem stjórnin hefir lagt til að skólunum sje veittur, og að það hafi litla raunverulega þýðingu að fastbinda sig við form það, er háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) vildi láta fylgja. Mjer sýnist háttv. nefnd hafa að öðru leyti tekið sanngjarnlega í tillögur stjórnarinnar; en mælist til, að þingið sje ekki ofnaumt í tillögum sínum til skólanna; þeir þurfa aukinn fjárstyrk, ekki síður en aðrar stofnanir, í þessari dýrtíð.