14.08.1917
Efri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Eins og kunnugt er hefir þetta mál komið fyrir þingið nokkrum sinnum áður. Það hefir verið skorað á landsstjórnina að grenslast eftir og undirbúa, hvort jörðin Þorlákshöfn mundi fáanleg til kaups handa landssjóði. Enn fremur hefir verið skorað á stjórnina að láta rannsaka og gera áætlun um hafnargerð á þessum stað. Jeg veit ekkert um, hvað undirbúningi á kaupunum líður. Jeg hefi ekki sjeð neinar skýrslur um það efni. En um hitt atriðið, rannsókn á hafnargerðinni, er það að segja, að hafnarstæðið hefir verið rannsakað af þremur innlendum verkfræðingum, hverjum í sínu lagi. Það eru þeir Þorvaldur Krabbe, Jón Þorláksson og síðast Jón Ísleifsson, sem rannsóknina hafa int af hendi. Enn fremur mætti geta þess að hafnarstæðið hefir verið rannsakað af erlendum verkfræðingum, en ókunnugt er, að hvaða niðurstöðu þeir hafa komist.

Þessar rannsóknir innlendu verkfræðinganna hafa orðið ærið mismunandi, og þeir komist að töluvert ólíkri niðurstöðu, og stafar það sennilega af því, að óljóst hefir verið fyrir þinginu, hvort það hefir ætlast til að gera á þessum stað fiskibáta-, og þá einkum vjelbátahöfn, eða höfn fyrir stærri skip. Þetta hefir aldrei komið greinilega í ljós af þingsins hálfu, og þess vegna er ekki við því að búast, að stjórnin hafi getað lagt nákvæmlega fyrir þessa menn, hvernig rannsóknin ætti að vera, og því var málinu vísað til nefndar, að ástæða þótti til að komast að fastri niðurstöðu um það, hvernig rannsóknunum skyldi hagað.

Nefndin hefir nú komið fram með álit sitt, og geri jeg ráð fyrir því, að háttv. þingmenn hafi kynt sjer það og sjeð, að hvaða niðurstöðu hún hefir komist.

Jeg býst við því, að jeg þurfi ekki að fara út í nein einstök atriði í nefndarálitinu, og skal jeg þá að eins geta þess, í sem fæstum orðum, að niðurstaðan, sem nefndin hefir komist að, er sú, að hún telur æskilegt, að rannsókn þeirri, er þegar hefir verið byrjað á af Jóni verkfræðingi Ísleifssyni, verði haldið áfram og lokið á þann hátt, að verulega mætti á henni byggja.

Nefndin átti tal við verkfræðinginn, og þá kom það í ljós, að þrátt fyrir það, þótt hann hefði komist að þessari niðurstöðu, þá vantaði mikið á, að full vissa væri fyrir því, hvort aðferð sú, sem hann hafði hugsað sjer, væri nægilega trygg. Þess vegna þyrfti að rannsaka þetta enn nákvæmar og ítarlegar, því að það vita allir, hve háskalegt það

er að ráðast í slík fyrirtæki, ef þau svo skyldu mishepnast.

Jeg skal nú lýsa yfir því, fyrir nefndarinnar hönd, að þetta er hennar skoðun á málinu, en að það, sem jeg kann að segja fram yfir það, er fyrir minn reikning, ef háttv. meðnefndarmenn mínir geta ekki samþykt það.

Það verður þá þetta, að jeg tel æskilegt, að fiskiskipahöfn gæti komist þar upp sem fyrst. Jeg segi fiskiskipahöfn vegna þess, að jeg álít, að þótt höfn fyrir stærri skip yrði fyrirhuguð þar, þá er ekki líklegt, að hún gæti orðið svo útbúin, að skip gætu athafnað sig þar í hvaða veðri sem væri og ætíð komið þar vörum á land, en slíkar hafnir þurfa að vera þannig úr garði gerðar, að afgreiðsla hverskonar skipa sem er geti átt sjer stað tafarlaust.

Í öðru lagi er það mitt álit, að óhyggilegt sje að hugsa til mjög stórfenglegrar hafnarbyggingar þar, sem myndi kosta margar miljónir króna, og svo kæmi það ekki að notum nema örlitlum hluta landsins, aðallega tveim sýslum eða svo.

Jafnvel þótt því hafi verið haldið fram af ýmsum, að þetta væri það, sem að yrði að stefna, þá vil jeg samt láta í ljós, að jeg tel það óheppilegt, ekki að eins af því, að svo mikið fje væri borið í þennan stað, til þess að gera þar höfn. Það er ekki einungis hinn mikli kostnaður, er af því leiðir, heldur hlýtur það að hafa þau áhrif að rýra stórfenglega í verði aðrar eignir á öðrum stað, sem sje Reykjavík, því að hún yrði þá til stórhnekkis fyrir þann bæ og jafnvel fleiri bæi, en sjerstaklega fyrir Reykjavík, sem nú um margar aldir hefir verið skoðuð sem eðlileg miðstöð fyrir alt landið. Þetta er því ástæða, sem gerir það, að jeg vil taka það fram, að stefna sú, sem fram kemur í tillögu nefndarinnar, miðast við það, að minna fyrirtæki getur komið landinu að góðum notum, þó að það væri mest fyrir hin næstu hjeruð, að kostnaðurinn við stórskipahöfn stæði ekki í neinu rjettu hlutfalli við gagnið, sem af því yrði, og svo eru hinar aðrar afleiðingar, sem jeg hefi tekið fram, sem gera það rjettmætt, að horfið sje frá hugmyndinni um stórskipahöfn.