14.08.1917
Efri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Sigurður Eggerz:

Jeg skal að eins leyfa mjer að gera örstutta athugasemd.

Jeg verð að játa það, að jeg felli mig betur við þingsályktunartillöguna, eins og hún kom frá háttv. Nd., heldur en brtt. hv. nefndar. Ástæðan til þess er sú, að mjer finst brtt. vera heldur ofþröng. Ef verið er að kosta upp á rannsókn í Þorlákshöfn á annað borð, þá finst mjer rjettast að rannsaka hvorttveggja, hvað minni og stærri höfn myndi kosta. Það getur verið rjett hjá háttv. þm. Ak. (M. K.), að það hafi mikinn kostnað í för með sjer, en jeg sje þó ekkert á móti því, að ef kostað er upp á rannsókn, þá sje gerð ítarleg rannsókn, og sú hætta, sem Reykjavík stafaði af því, held jeg að varla sje teljandi. Sem sagt, jeg felli mig betur við till. háttv. Nd., af því að hún veitir heimild til að gera þær rannsóknir, sem nefndin leggur til, en leyfir einnig athuganir um stærri höfn.