14.08.1917
Efri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Að minni hyggju er það alveg rjett, sem háttv. frsm. (M. K.) tók fram, að eins og till. kom frá hv. Nd. er hún nokkuð óljós. Þetta staðfestist meðal annars af orðum háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), að rannsóknin eigi að miða að einu af tvennu, stærri eða minni höfn. En jeg get ekki sjeð, að neitt sje ákveðið um þetta í till. hv. Nd., heldur sje það eftir geðþótta stjórnarinnar, og það tel jeg óaðgengilegt.

Jeg geri að vísu ráð fyrir, að háttv. Nd. hafi ekki ætlast til, að það væri að eins rannsakað, hvað það myndi kosta að gera minni höfnina, heldur einnig hina stærri, en þar sem það er víst, að hjer yrði um margra þúsunda króna kostnað að ræða, þá verð jeg að álíta, að till. hv. nefndar sje miklu aðgengilegri. Að vísu er það svo, að í till. sjálfri er ekki talað um kostnað, heldur að eins í nál., en ef till. yrði samþ., þá yrði sú rökfærsla, er þar kemur fram, að skoðast staðfest.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort ekki væri tiltækilegt að byggja þarna höfn fyrir venjuleg hafskip, en jeg verð að líta svo á, að það væri tæplega út í það leggjandi fyrir stjórnina, þar sem till. háttv. Nd. tekur það ekki beint fram og ekkert fje er ætlað til þess í fjárlögunum.

Jeg verð því að hallast að till. hv. nefndar í þessu máli.