14.08.1917
Efri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Frsm. (Magnús Kristjánsson); Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) tók það fram í upphafi ræðu sinnar, að það væri að eins örlítil athugasemd við aðgerðir nefndarinnar.

Hún virtist nú ekki vera nema örlítil, en þar kom þó fram sá tilgangur hans að fella till. nefndarinnar og eyðileggja að öllu starf hennar.

Að því er rannsóknina snertir, þá er svo mikill meiningamunur, að ekki getur komið til mála að aðhyllast jafnmikla og ítarlega rannsókn og hv. 2. landsk. þm. (S. E.) vill, og að minsta kosti verður engin átylla dregin út úr ályktun háttv. Nd. um það, að fyrir henni hafi vakað eins ítarleg rannsókn og virðist vera hjá háttv. 2. landsk. þm. (S. E.). Ef háttv. deild hefði ætlast til þess, þá hefði hún hlotið að taka það fram, því að ekki er hægt að fleygja máli jafnóundirbúnu í stjórnina og segja henni að láta fara að rannsaka alt mögulegt og ómögulegt á öðrum eins stað og þessum, með því að öllum hlýtur að vera það ljóst, að rannsóknin hlýtur að kosta stórfje, hvað sem framkvæmd starfsins líður.

Þegar farið er fram á rannsókn á svo miklu dýpi, þá útheimtist til þess svo mikið fje, að það hefði vitanlega orðið að tiltaka einhverja upphæð, sem stjórnin hefði mátt verja til þess, því að ef sú rannsókn á að vera þannig, að á henni megi áreiðanlega byggja, þá hlýtur hún að kosta stórfje.

Enda þótt þessi till. nefndarinnar yrði samþ., sem jeg geri ráð fyrir að verði, með því að ekki er nema um þessar tvær till. að velja, þá vona jeg, að hv. 2. landsk. þm. (S. E.) og þeir, sem honum fylgja í þessu máli, ef nokkrir eru, sætti sig við það, enda væri þeim þá innanhandar að beita sínum miklu áhrifum og starfskröftum til þess að láta taka þá hugmynd síðar.

Jeg vonast til þess, að hv. 2. landsk. þm. (S. E.) viðurkenni það, við nánari athugun, að stefna till. sje rjett. Og jafnvel þótt það væri til ofmikils mælst, að hann greiddi till. atkv. sitt, þá leyfi jeg mjer að vænta þess, að hann láti hana hlutlausa.