14.08.1917
Efri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) vildi afsaka það, að svo miklar umr. yrðu um þetta mál, með því, að ekki væru fleiri mál á dagskránni. En mjer fanst háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) fara dálítið inn á alvarlega hluti, sem ekki beinlínis hefði þurft að koma þessu máli við, þar sem hann ljet þá stefnu ein dregið í ljós, að jafnvel þótt ráðist yrði í það í nánustu framtíð að byggja þessa höfn, þá mundi honum aldrei detta í hug að fara að taka útlent fjármagn til aðstoðar. (S. E.: Það hefi jeg aldrei sagt). Jú, orðin fjellu á þessa leið, og »töluð orð verða ekki aftur tekin«, en það mætti kann ske snúa þeim við þannig, að þau litu eitthvað öðruvísi út. En jeg er nú algerlega á annari skoðun í þessu máli; að því er snertir þessi verk og önnur slík, er kosta margar miljónir króna, þá er mjer næst skapi að halda fram þeirri skoðun, að þau geti ekki komist í framkvæmd, nema því að eins, að til þeirra sje varið útlendu fje.

Hitt er annað mál, að menn getur greint á um aðferðir og skilyrði, en jeg álít, að vjer verðum að gera oss þetta ljóst, en ekki að vera að halda því fram í blindni, að vjer sjeum sjálfum oss nógir að þessu leyti og þurfum ekki að leita til útlendinga, en jafnframt er því haldið fram, að þeir sjeu beinlínis sólgnir í að lána oss fje, til þess að vjer getum gert það, sem vjer viljum.

Jeg vil þá spyrja, hvort er hyggilegra að taka við fje, sem manni er boðið að láni og fæst með góðum skilyrðum, eða hitt, að ganga mann frá manni, land úr landi og biðja um það fje, er þarf til framkvæmda, og verða svo að hlíta skilyrðum, sem eru verri en þau, sem maður átti kost á fyr?