14.08.1917
Efri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Sigurður Eggerz:

Mjer þykir það merkilegt um jafngáfaðan mann og háttv. þm. Ak. (M. K.) er, að hann skuli hafa misskilið svo hrapallega alt, sem jeg sagði.

Þess er þá fyrst að geta, að jeg sagði, að mjer dytti ekki í hug, að þörf væri á að fá útlent fje til rannsóknar á höfn í Þorlákshöfn. Jeg hefi vitanlega talið sjálfsagt, að fje til þess yrði veitt í fjárlögunum, svo að allar hugleiðingar háttv. þm. (M. K.) um þetta atriði voru ekki svör við því, sem jeg sagði, heldur við því, sem jeg kynni að hafa sagt, eða mundi ef til vill einhvern tíma segja.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) hafði enn fremur eftir mjer þau ummæli, að væri jeg stjórn, myndi jeg ekki hleypa útlendu fje inn í landið. Orðin »væri jeg stjórn« eru þau einu, sem rjett eru höfð eftir. Og jeg notaði þau í alt öðru sambandi. Jeg viðhafði þau í tilefni af ræðu hæstv. atvinnumálaráðherra og í sambandi við það, hvort rjettara væri að samþ. þrengri till. eða þá rýmri. Jeg tók það fram, að væri jeg stjórn, kynni jeg illa við að vera rígbundinn við ákveðna leið í þessu máli, sem við nánari athugun kynni að sýnast lítt heppileg.

Jeg verð að fyrirgefa háttv. þm. (M. K.) þetta, því að jeg geng að því vísu, að hann hafi einungis tekið rangt eftir, en ekki ætlað sjer að fara vísvitandi rangt með. En jeg þakka hæstv. forseta fyrir þá góðvild að gefa mjer tækifæri til þess að leiðrjetta þennan hrapallega misskilning.