11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Framsm. (Bjarni Jónsson):

Mjer gleymdist að geta þess í fyrri framsögu minni, að ruglingur komst á hjá mjer, er jeg skrifaði brtt. við 2. gr. C. III. 10. 4. lið b. um vjelbátaferðir í N.-Þ, Það lágu tvö tilboð fyrir nefndinni, annað um að endastöðvar skyldu vera á Seyðisfirði og Sauðárkróki, en eftir hinu áttu þær að vera á Seyðisfirði og Akureyri, og samþykti nefndin að taka síðara tilboðinu. Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) umgekst málið fyrir hönd samgöngumálanefndar, og fór fjárveitinganefnd eftir tillögum hennar um þetta. Þessa þótti mjer þörf að geta, til að fyrirbyggja, að þessi villa slæddist inn í lögin sjálf.

Það, sem sagt hefir verið um skólana, kemur mjer ekki við í þetta sinn. En þó vil jeg minnast á eitt atriði í ræðu háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), er hann var að tala um uppbót á launum kennara. Hann virtist leggja meira í orð nefndarálitsins en átti að vera. Þar er tekið fram, að einn liðurinn í umsóknum skólanna sje, að þeim sje veitt fje til að bæta laun kennara sinna, en af þeim lið hafi þeir þegar fengið meira en þeir sækja um fyrir árið 1916. Fanst nefndinni einsætt að draga þær upphæðir frá umbeðnum styrk, því að þetta þyrfti ekki að veita aftur. Okkur var það ljóst, að skólarnir gátu ekki tekið af þessu handa kennurum, því að það fje er ekki ætlað til rekstrar, sem ætlað er kennurum. Þetta vildi jeg segja til að skýra hugsun nefndarinnar. Annars þarf jeg ekki að auka við nefndarálitið, hefi gert þar stuttlega grein fyrir öllum liðum. Að eins vil jeg nefna lið þann, er hljóðar um styrkveitingu til Sigfúsar Blöndals. Er það atriði raunar allítarlega skýrt í nál., en ef einhver óskar frekari skýringa, er jeg fús til að gefa þær, en hygg, að þess þurfi ekki. Sigfús er mjög iðinn, glöggur og góður vísindamaður, sem ekki er annara um annað en að ganga vel frá verki. Hefi jeg þekt hann alt frá því að hann hóf skólalærdóm, og hefir hann altaf verið stakur iðju- og eljumaður. Kunnugt er, hversu mikils trausts hann hefir aflað sjer í stöðu sinni í Danmörku. Auk þess er hann svo heppinn, að fóstri hans, Björn M. Ólsen prófessor, hefir látið honum í tje alt orðasafn sitt, sem hann var að safna til alla mína skóla- og kennaratíð, eða nú yfir 20 ár. Þar er þetta kemur alt í eitt, er þetta svo merkilegt starf, að enginn horfir í að veita fje til þess, að slík bók komi út sem fyrst. Annars get jeg gefið frekari skýringar, ef menn óska. Ætla jeg svo ekki, að fleiri liði þurfi sjerstaklega að nefna, þar sem enginn hefir lagt móti till. nefndarinnar, og þessar 2 brtt. frá þingmanna hálfu eru ekkert sjerstaklega á móti nefndinni. Hefir hún óbundin atkvæði þar um.

Jeg ætla, að jeg þurfi nú ekki að tala oftar um sinn.