03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (2127)

101. mál, stofnun og slit hjúskapar

Pjetur Þórðarson:

Jeg á hjer brtt. á þgskj. 216, ekki við brtt., heldur við aðaltillöguna, eins og sjest á því, að farið er fram á að sleppa úr orðunum »um endurbætur á gildandi löggjöf«, sem mjer virðast óviðeigandi í meginmáli tillögunnar.

Mjer fanst hv. flutnm. (E. A.) kunna illa við orðið »viðhald«, en jeg verð að álíta, að þegar um stofnun er að ræða, sem hefir svo mikla þýðingu fyrir þjóðfjelagið í heild sinni sem hjónabandið, og þegar ætlast er til þess að gera endurbætur á löggjöf um stofnun þess og slit, þá eigi einnig við að setja ákvæði um viðhald þess. Á jeg þar sjerstaklega við ýms atriði, er koma til greina og eru venjulega aðdragandi að því, að hjúskaparslit verði.

Jeg hefi sjeð það af reynslunni, að oft er sáralítið gert til að fara að vilja þess hjónanna, sem vill ekki skilnað. Jeg hygg því, að meira mætti gera en nú er gert, með hentugum lagaákvæðum, til þess að koma á sátt og samkomulagi, svo að rjettur hvorugs verði fyrir borð borinn. Jeg trúi ekki öðru en að háttv. deild geti verið þekt fyrir að samþykkja þessa litlu brtt. mína, og ímynda jeg mjer, að hv. flm. (E. A.) geti fallist á hana.

Annað atriði brtt. minnar er um fyrirsögn frv., sem verður einfaldari eftir minni till. Annars er þetta svo óbrotið mál og einfalt, að jeg vona, að háttv. þingd. fallist á báðar þessar brtt. mínar.