03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

101. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg viðurkenni, að það muni þurfa að endurskoða þessa löggjöf, og býst við, að stjórninni verði ljúft að verða við þessum tilmælum. Jeg álít, að ef endurskoða skal alla löggjöfina, mætti líka bíða frv. um stofnun hjúskapar, sem fram er komið hjer í háttv. þingd.

Háttv. flutnm. þessarar till. (E. A.) ætlast ekki til, að stjórnin gæti sjálf annað því að semja frv. það, sem hjer er um að ræða, og er það mjög sanngjarnt, því að jeg býst við, að svo yrði, a. m. k. fyrst um sinn. Hvernig stjórnin færi að veit jeg ekki enn, því að jeg hefi ekki borið mig saman við meðstjórnendur mína um það; reyndar býst jeg við, að það myndi heyra sjerstaklega undir mig, sem stendur. Einn vegur er reyndar til, og það er að leita til Háskólans og fá hann til að undirbúa frv. í þessa átt.

Ætlað get jeg, að það væri vel ráðið, að leita til Háskólans með samningu frv., sem eru »teknisk« lagalegs efnis. Og um þetta mál má geta þess, að það er mjög mikill undirbúningur gerður í því, af bestu lögfræðingum Norðurlanda, og má nota hann mikið. Þótt hann sje ekki enn kominn til framkvæmda á Norðurlöndum, þurfum við ekki að bíða eftir því.

Sem sagt, frá stjórnarinnar hálfu mun þessari málaleitan verða vel tekið.

Jeg get ekki sjeð annað en að till. feli líka í sjer alt það, sem háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) hefir talað um, og álít jeg því brtt. óþarfa.