11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Jörundur Brynjólfsson:

Stjórnarnefnd kvennaskólans hjer hefir sótt til Alþ. um 3000 kr. til þess skóla, og hæstv. stjórn lagt til, að honum skyldi veita 2500 kr. Nú hefir háttv. fjárveitinganefnd lækkað þá upphæð um 500 kr. Á reikningnum, sem fylgir umsókninni, er það sjáanlegt, að talsvert mun ganga á eign skólans, ef hann fær ekki talsverða uppbót, og því meir sem meira skortir á hina umbeðnu upphæð. Jeg hefi ekki komið með brtt., því að jeg vænti, að hv. deild verði svo sanngjörn að samþykkja till. stjórnarinnar, að skólinn fái 2500 kr. Í svona dýrtíð hafa þessir skólar engu af að taka nema eigum sínum, en það álít jeg afarskaðlegt. Hins vegar er það ógerningur að hækka skólagjaldið; nemendum veitir sjálfsagt fullerfitt að kosta sig hjer í dýrtíðinni, þótt þeim sje ekki íþyngt með hærri fjárframlögum til skólans en venjulega.

Jeg vil svo ekki fjölyrða frekar, en vænti þess, að háttv. þingd. samþykki till. stjórnarinnar.