10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

110. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

Jeg vil styðja þá tillögu, að þessu máli sje vísað til nefndar, og jafnframt skjóta því til væntanlegrar nefndar, hvort ekki mundi heppilegt að breyta sveitfestitímanum.

Það er alveg víst, að þetta 10 ára sveitfestitakmark er mjög óheppilegt. Jeg get í því efni skírskotað til umræðnanna á Alþingi 1905 og til ummæla hæstv. forsætisráðherra þá, sem hnigu á þá leið, að þetta 10 ára takmark væri í eðli sínu tímaspurning, sem komið gæti til álita að breyta, áður en langt um liði. Jeg hefi áður flutt hjer á þingi frv. til laga um breyting á þessu ákvæði, en það var felt hjer í Nd. En nú vænti jeg, að nefndin taki til athugunar þetta atriði. Það getur engum dulist, að sú regla er óheppileg, sem leiðir til þess, að mönnum er ýtt burt úr dvalarstöðum þeirra þegar þeir hafa verið þar í 9 ár, en eru svo teknir inn aftur eftir eitt ár. Þetta er mjög óviðeigandi, og alment munu menn óska að fá þessu breytt.

Háttv. flm. (J. B.) sagði, að flutningur þurfamanna mundi vera harðneskjulegur. Alstaðar þar, sem jeg þekki til, er reynt að fara með þurfamenn í flutningi frá einum hreppstjóra til annars eins vel og hægt er. Mjer þykja því þessi orð undarleg, og efast jeg um, að þau sjeu rjett. Jeg vil vona, að allir hreppstjórar þessa lands fari svo vel með þurfalinga þá, er þeir lögum samkvæmt verða að flytja, að ekkert verði út á það sett með fullri sanngirni. Annars er það aukaatriði fyrir mjer, hvernig flutningnum verður fyrir komið, þótt jeg sjái tæplega annað fyrirkomulag hentara en nú er. Það, sem mjer virðist skifta mestu máli, er sveitfestiatriðið, og óska jeg og vona, að háttv. nefnd, er málið fær til athugunar, taki það til ítarlegrar yfirvegunar.