11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Pjetur Jónsson:

Jeg skal ekki bæta miklu við það, sem jeg hefi þegar sagt. Jeg held, að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki grúskað eins mikið í reikningum skólanna og við nefndarmenn, því að mjer fanst honum ekki vera ljóst, að hve miklu leyti skólarnir hafi safnað skuldum af völdum dýrtíðar.

Jeg skýrði frá því, að eftir reikningum og áætlunum þyrfti Flensborgarskólinn 1000 kr. í tekjuþurðina fyrir síðastliðið skólaár, og þessar 1000 kr. leggur nefndin til að verði veittar. Aftur var því fastlega haldið fram, að nefndin vildi ekki borga skuldir skólans frá því fyrir stríðið. Jeg benti á upphaf þessa skóla og gat þess, að ekki væri nema sjálfsögð krafa, að þessum skóla væri sýnd sú rækt af hálfu þeirra, er hann stofnuðu og nota mest, að hann gæti haldist í góðu lagi. Nú er mjer ekki kunnugt um, að neitt sveitarfjelag eða sýsla eða einstakir menn hafi um langt skeið lagt skólanum neitt. Þetta er ekki til eftirbreytni, og að fara að verðlauna slíka framkomu af landssjóðsfje á alls ekki við.

Þegar umræðan varð hjer í deildinni um Eiðaskólann og breytingu hans í lýðskóla, sem landssjóður tæki að sjer að fullu, benti jeg á það, að ekki væri heppilegt að slá því föstu svona upp úr þurru og umhugsunarlítið, að landið tæki að sjer slíkar skólastofnanir að fullu og öllu; því að þá mundi nálega hvert hjerað koma og heimta sinn unglingaskóla af landssjóði. En slíkt stórræði má ekki ráðast í nema með vel fyrirhuguðu ráði og fullu skipulagi og rjettlæti; en slíkt verður eigi, ef einum og einum skóla er smeygt að. Það er þetta skipulagsleysi á skólamálunum, sem jeg hefi verið að stríða við í mörg ár, og þykir mjer ilt, þegar bestu menn stuðla að því líka, að þess háttar barátta verði árangurslaus.

Jeg vil að eins benda á það atriði, viðvíkjandi sögu Flensborgarskólans, að þegar hann veitti kennarafræðslu, var það ástæðan til þess, hve háan styrk hann fjekk. Þá var hann í senn kennaraskóli, »gagnfræðaskóli« svo kallaður og barnaskóli að einhverju leyti, og mun þá hafa komist á, að hann framfleyttist að mestu á landssjóðstillagi. En þegar kennaraskóli var settur á stofn í Reykjavík, ætlaðist nefnd sú, er við kennaraskólamálið átti, til þess, að niður fjelli tillag til Flensborgarskólans að öðru leyti en því, sem samskonar skólar annarsstaðar væru styrktir.

Um Blönduósskólann þarf jeg ekki að fjölyrða frekar. Um það þýðir ekki að rífast við háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), enda er ágreiningur um brtt. hans ekki svo mikill.

Jeg sagði ekki, að skólinn væri fyrir Húnvetninga eina; jeg vissi, að hann er sóttur víðar að. Hann hefir reynst vel, og er því sóttur víðs vegar af landinu, en hann var settur fyrir Húnavatnssýslu, og, að sagt var, í trássi bæði við guð og menn. Einu sinni var mikil þræta um, hvar kvennaskóli fyrir Norðurland ætti að vera. Þeir, sem sæmilega eru að sjer í landafræði, vita, að hann er betur settur annarsstaðar. Skagfirðingar mótmæla því gersamlega, að skólinn væri fyrir þá, og ekki er hann þar fyrir Eyfirðinga, því að skóli þeirra ljet eiginlega lífið fyrir Blönduósskólann. Húnvetningar voru að eins duglegastir að drífa skólann upp. Er hann því ekki skóli fyrir Norðurland, heldur að eins fyrir þann hluta Norðurlands, sem heitir Húnavatnssýsla.