23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2102 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

110. mál, fátækralög

Jörundur Brynjólfsson:

Það er að eins örstutt athugasemd. Það geta auðvitað verið skiftar skoðanir um það, hverju beri að breyta í þessum lögum og hverju ekki. Jeg ætla mjer því ekki að fara að deila við hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) um það. Hann heldur því fram, að lögin sjeu góð eins og þau eru, en það geri jeg ekki. En það eru nokkur atriði, sem jeg felli mig ekki við og okkur ber á milli. Það er þá fyrst um frestinn, sem háttv. frsm. (M. G.) sagði að væri nægilegur. Jeg get bent honum á eitt tilfelli, þar sem þessi frestur verður ekki nógur. Það er

t. d. ef maður verður veikur, eða mjög langur tími líður áður en rjett skýrsla er fengin um sveitfesti mannsins, því að það fje, sem dvalarsveitin leggur fram, manninum til framfæris, á meðan verið er að afla upplýsinga um framfærslusveit hans, fær dvalarsveitin ekki greitt nema að ?. Tjón dvalarsveitar af þessum ástæðum getur því oft orðið mikið.

Jeg hefi þetta frá borgarstjóra hjer, sem hefir sagt mjer, að fresturinn væri oft og tíðum ónógur, og að Reykjavíkurbær hefði fyrir þá sök orðið fyrir órjettmætum útgjöldum. (M. G.: Þetta er misskilningur). Jeg vil benda hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) á, að þetta er staðfest af borgarstjóra. (M. G.: Það sannar ekkert). Það sannar það, að lögin eru ekki eins góð og skyldi, og háttv. þm. (M. G.) er ekki til neins að neita því. Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) færir það sínu máli til stuðnings, að það sje komin festa í lögin, og beri því ekki að breyta þeim. En jeg verð að segja, að það fara að verða hálfundarleg lög, sem eiga að vera því undanþegin, að þeim verði breytt, þótt nauðsyn beri til. Eitt atriði var það enn, sem hv. þm. (M. G.) minti mig á rjett í þessu.

Jeg veit þess mörg dæmi, að menn hafa skotið saman til að hjálpa báglega stöddum mönnum frá því að fara á sveit. Og til hvers eru þá þessi hörðu ákvæði í lögunum? Lög þjóðarinnar verða þó á marga lund skoðuð sem spegill af menningu hennar og þroska, og alls ekki rjett að hafa þau ákvæði í lögum, sem ekki er farið eftir og enga þýðingu hafa.