11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Fjármálaráðherra (B. K.):

Hv. formaður fjárveitinganefndar vissi ekki, á hverju stjórnin hefði bygt till. sínar um styrk til skólanna. Jeg sagði áður, við 1. umr. málsins, að miðað væri við þörf skólanna, hvað þeir þyrftu til að geta lifað. Flensborgarskólinn hefir t. d. í tekjur 165 kr. á mánuði. Hann getur hvorki gert kröfu til bæjar- nje sýslufjelags, því að hann er stofnaður fyrir alt landið. Hann er því ekki fyrir Hafnarf., heldur alt landið. Ef þingið treystir sjer ekki til að styrkja hann, svo að hann geti lifað, verður að leggja hann niður. Skóli þessi hefir gert mikið gagn. Það er viðurkent, að hann sje ódýr, honum sje vel stjórnað og hann veiti góða fræðslu. Finst mjer miklu nær að styrkja þá skóla, er reynslu hafa fengið, en að stofna nýja skóla. Jeg er samþykkur háttv. formanni fjárveitinganefndar (P. J.) um, að skólinn megi vera þakklátur fyrir dýrtíðaruppbót þá, er hann fekk, eins og aðrir skólar, en sú uppbót gengur ekki til rekstrar. Eins er jeg samdóma háttv. form. (P. J.) um það, að landið hefir aldrei játað, að það eigi að bera allan kostnaðinn. Spurningin er að eins þessi: Á skólinn að lifa eða ekki? Hann getur ekki gert kröfur til annara en landssjóðs, og krafan er að eins sú, hvort hann á að deyja eða ekki. Það er eðlilegt, að eigur skólans hafi rýrnað, þar sem hann hefir ekki getað sótt nægar tekjur til að standast árlegan kostnað sinn. Til dæmis munu eigur kvennaskólans rýrna, ef hann fær ekki þann styrk, er stjórnin hefir lagt til.