09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

138. mál, smíð brúa og vita

Frsm. (Benedikt Sveinsson):

Síðari árin hefir landsverkfræðingurinn haft hjer í Reykjavík smiðju til þess að smíða járnbrýr, gera við ýms verkfæri og smíða vitagrindur úr járni. Þessi smiðja hefir verið notuð síðan árið 1911, og stendur hún uppi við Klapparstíg hjer í bænum. Nú eru húsakynnin þar orðin ofþröng, og því hefir smíð á vitum og því, er til þeirra þarf, orðið að þoka burt, því að hinar smíðarnar eru orðnar svo umfangsmiklar.

Vitamálaverkfræðingurinn hefir skrifað fjárveitinganefndinni, og vill hann láta veita 25—30 þús. króna til þess að koma á sjerstakri smiðju til þess að smíða vitana. Til þessara smíða þarf samskonar áhöld og til brúarsmíða. Sýndist nefndinni einsætt, að hagfeldara væri að eiga eina öfluga smiðju, auðga að áhöldum, heldur en burðast með fleiri smærri smiðjur, og þess vegna leist henni ráðlegast að vísa þessu máli til stjórnarinnar, svo að hún undirbúi undir næsta reglulegt Alþingi byggingu sjerstakrar smiðju, þar sem smíða mætti bæði brýr og vita, eða þá að auka þessa smiðju, sem til er, svo að hún nægi til þessa.

Nú er það augljóst, að vjer þurfum að fá stærri smiðju í framtíðinni, ekki einungis til þess að smíða brýr og vita, heldur og til þess, að hægt sje hjer á landi að gera við járnskip og smíða slík skip af nýju. Sú smíð ætti helst að vera í sambandi við þessa smiðju, og þyrfti hún því að standa á hentugum stað, þar sem nóg væri landrými, svo að hægt væri að koma þar fyrir nauðsynlegum byggingum, og svo nærri sjó, að auðvelt væri að koma skipum á flot eða draga þau upp til viðgerðar.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um þetta mál, því að jeg vona, að allir skilji, að hjer er nauðsynjamál um að ræða.