11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Magnús Pjetursson:

Jeg skal ekki lengja umræður mikið, og skal þá fyrst víkja að ræðu háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.). Um dýrtíðaruppbót landssjóðsstarfsmanna er það að segja, að öll skjöl, sem þar að lúta, fóru jafnharðan frá nefndinni til bjargráðanefndar, því að sjálfsagt þótti, að sú nefnd fjallaði um öll þau mál, sem standa í sambandi við dýrtíðaruppbætur, úr því að háttv. deild vísaði því máli til hennar. Skjölin liggja annars nú hjer á borðinu, og sjá menn, að það er álitlegur búnki.

Viðvíkjandi fasteignamatsmönnunum er það að segja, að ekki þótti ástæða til að fara neitt út í það að sinni að ákveða þeim dýrtíðaruppbót. Eins og kunnugt er liggur nú fyrir frv. um að hækka dagpeninga þessara manna upp í 7 kr. á dag, Jeg geri ráð fyrir, að háttv. deild taki frv. það til íhugunar, og er sjálfsagt að sjá fyrst, hvað úr því verður, áður en aðrar ráðstafanir eru gerðar.

Jeg vil undirstrika það, sem formaður nefndarinnar, háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hefir sagt um skólana. Það, sem fyrir nefndinni vakir, er ekki það, hvort skólar þessir fá hærri eða lægri upphæð, heldur er það stefnan, sem nefndin getur ekki fallist á, sú stefna, sem hvað eftir annað kemur fram í umræðum hjer í deildinni, að landssjóður eigi að greiða tekjuhalla þessara skóla. Með því er gengið út frá, að þá eigi að skoða sem landsskóla, en því er nefndin eindregið á móti.

Jeg tek þetta fram til þess, að háttv. deild geti athugað það, og viti hvað um er að vera. Ef hún samþykkir uppástungur stjórnarinnar, með þeirri greinargerð, sem fyrir þeim eru færðar, þá er hún búin að slá því föstu, að landssjóður eigi að sjá skólunum borgið.

Jeg get fallist á brtt. háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), því að það er nú upplýst, að skekkja hafi orðið í eldsneytiskostnaði skólans á Blönduósi, sem jeg get gengið inn á að bætt sje upp.

Að því er snertir Breiðafjarðarbátinn, þá hefir einn úr samgöngumálanefndinni minst á það, að skiftar skoðanir hafi verið um það, hve hár styrkurinn ætti að vera. Það er siður að fara altaf eftir tillögum samgöngumálanefndar um þess konar fjárveitingar. Fjárveitinganefndin ber því fram tillögu þessa, eins og hún kemur frá samgöngumálanefnd. Þeirri nefnd er því skylt að gera grein fyrir, á hvaða rökum hún byggir það að ákveða styrkinn 4000 kr. en ekki meira.