09.08.1917
Neðri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

141. mál, ásetningur búpenings

Frsm. (Jón Jónsson):

Já, það mun margur hugsa, að svo kunni að fara, að bændur setji illa á í haust, bæði vegna þess, að aðflutningar eru erfiðir og því ilt að fá kraftfóður, og í öðru lagi af því, að veturinn í fyrra var harður, en tíðin í sumar óhagstæð, því að enda þótt gras hafi verið mikið sunnanlands, hefir það illa nýst, vegna stöðugra óþurka, en norðan- og austanlands hefir að vísu verið góð nýting, en grassprettan slæm.

Þegar svona standa sakir, munu flestir álíta, að rjett sje fyrir þingið að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að bændur athugi þetta mál sem best. Vitanlega er það bændum í eigin hag, en maður veit, að þeim geta verið mislagðar hendur með það.

Nú hefir okkur í landbúnaðarnefnd dottið í hug að skora á stjórnina, með þingsályktunartill., að brýna fyrir sveitarstjórnum að gera ráðstafanir um ásetning hjá bændum í haust. Hugsun nefndarinnar er, að þetta sje gert að þessu sinni, en gæti líka ef til vill orðið framtíðarspursmál fyrir hreppsstjórnirnar. Ef þetta yrði gert árlega, gæti það orðið til þess, að bændur sættu sig betur við forðagæslulögin og hlýddu betur reglum um ásetning. Nefndin gerir ráð fyrir, að ákveðið verði á hreppamótum eða almennum sveitarfundum, að hver bóndi eigi svo mikið fóður, að hann geti gefið inni í svo og svo margar vikur. Nú vitum við, að ólag er á forðagæslunni; fyrst og fremst er hún ekki komin alstaðar á, og í öðru lagi hafa menn ekki alstaðar skilið tilgang hennar og ekki hlýtt lögunum. Þetta gæti komið sem nokkurskonar uppfylling á lögunum. Jeg veit, að sumir munu álíta, að þörf sje á heimildarlögum um hjeraðasamþyktir, en nefndin áleit það ekki nauðsynlegt, af því að forðagæslulögin gilda áfram. Það er óviðkunnanlegt að hafa tvenn lög um sama efni, og betra að hafa frjáls samtök. Það er því hugsun tillögunnar að fá bændur til að vakna til umhugsunar um að hafa nóg fóður, og þá væri vitanlega æskilegt, að skoðun færi fram á undan slíkum sveitarfundum, sem hjer er um að ræða, svo að bændur vissu, hve mikinn forða þeir þyrftu og hve lengi það entist, sem þeir hafa. Nú vitum við, að ætlast er til í forðagæslulögunum, að skoðun fari ekki fram fyr en í vetrarbyrjun, en það er nokkuð seint, ef menn ætla sjer að farga fje því, sem of er í sláturtíðinni. Jeg hygg, að það mætti hafa skoðunina fyr en lögin ætlast til.

Hvernig sem á er litið, er rjett, að tillaga sje gerð í þessa átt, því að það skiftir mestu, að almenningur taki því vel, að stjórnarvöldin vilja hafa eftirlit með, hvernig sett er á, og jeg sje ekki, að það verði betur gert á annan veg en þann, að bændur sjeu sjálfir látnir gera samþyktir um það, sem er sveitum þeirra fyrir bestu. Það er hugsun nefndarinnar, að slík tillaga sem þessi verði til umræðu bæði í þessari háttv. deild og háttv. Ed., svo að málið verði sem best athugað.