11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Benedikt Sveinsson:

Vegna þess að hv. þm.(M.P.) skýtur því til samgöngumálanefndar að gera grein fyrir styrk þeim til vjelbátaferða, sem fjárveitinganefndin hefir lagt til að veittur yrði, að undirlagi samgöngumálanefndar, þá finn jeg ástæðu til að lýsa yfir því, að það er rjett, sem hann sagði, að í 4. brtt., staflið b, við 2. gr., er ritvilla. Endastöðvar vjelbátaferða um Norður-Þingeyjarsýslu eru Seyðisfjörður og Akureyri, en ekki Sauðárkrókur, eins og stendur í brtt, nefndarinnar. Nefndinni hafði borist beiðni um styrk til samgöngubóta í Norður Þingeyjarsýslu. Það hjerað hefir orðið tilfinnanlega út undan með samgöngur á síðasta ári, svo að menn þar hafa jafnvel ekki getað komið kjöti sínu burt fyr en rjett nýlega, og á sama hátt hefir þeim verið fyrirmunað um aðdrætti nauðsynja sinna. Það hefir því verið farið fram á 8000 kr. styrk til bátaferða milli Seyðisfjarðar og Akureyrar, og samningar eru þegar gerðir við Þorstein Jónsson, kaupmann á Seyðisfirði. Hann hefir til ferða þessara skip, sem er miklu stærra en ráð er fyrir gert í skilyrðum nefndarinnar. Skipið er eitthvað 70 smálestir, og byrjar ferðir sínar einmitt nú í dag. Reynt hefir verið að semja við mann þennan um að láta bátinn ganga til Sauðárkróks, en þeir samningar eru ekki komnir í kring að því er snertir svæðið milli Akureyrar og Sauðárkróks. Ef þeir samningar takast, þá verður að koma fram brtt. við þennan lið við 3. umr. fjáraukalaganna.

Jeg vil taka þetta fram til þess, að þeir, sem hlut eiga að máli, t. d. háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), líti ekki svo á, að hjer sje um blekkingu að ræða frá nefndarinnar hálfu, að farið sje fram á styrk til ferða um stærra svæði en um er samið. Jeg skýt því til háttv. forseta, hvort eigi megi leiðrjetta þetta á þgskj. sem prentvillu, áður en gengið er til atkvæða. Samningar um bátaferðir milli Akureyrar og Sauðárkróks standa yfir, og það kemur til greina við 3. umr. að ákveða, hvern styrk skuli til þeirra veita. — Að öðru leyti get jeg lýst yfir því, að samgöngumálanefndin mælir með brtt. fjárveitinganefndar á þgskj. 218, en ekki öðrum.