13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

154. mál, fóðurbætiskaup

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg býst ekki við, að margra orða sje þörf um mál þetta. Bjargráðanefndin hefir síðan á öndverðu þingi talið það nauðsyn að reyna að sjá um, að einhver fóðurbætir sje til hjer í landi. Nú er það alkunna, að erlendis er ekki auðið að fá þann fóðurbæti, er áður hefir tíðkast, mais eða aðrar tegundir, því að þær eru sumpart ófáanlegar, sumpart ofdýrar og sumpart svo erfiðar að flytja, að ekki svarar kostnaði. Þá leit bjargráðanefnd svo á, að rjett væri að búa við það, er heima fæst, og þar sem það er vitanlegt, að síld er ágætur fóðurbætir, ritaði nefndin stjórninni brjef á öndverðu þingi og bað hana að sjá um kaup á nægilegri síld í þessu skyni, til þess að síldinni væri ekki fleygt í sjó. Nefndin þóttist þess fullviss, að nægir kaupendur myndu gefa sig fram og biðja um fóðurbætinn. Nú hefir stjórnin heldur kosið að fá áskorun í þingsályktunarformi, og þar eð nefndin telur nauðsynlegt, að fram gangi málið, bar hún fram þessa þingsályktun.

Það er alkunna, að við sjávarsíðuna eru töður litlar, kýr oft allmargar, og mönnum því ómáttugt að fóðra skaplega kýr sínar, nema þeir hafi fóðurbæti nokkurn til drýgingar heyföngum. Og þar sem nú er fullvíst, að eigi muni ofmikill kostur matvæla í landinu að hausti komanda, er það skylda að gera alt til að auðvelda mönnum framleiðslu mjólkur. Einkum er við sjávarsíðuna skortur mikill þessarar vöru, sem best er og hollust börnum og gamalmennum. Jeg hygg, að eigi þurfi að leiða frekari rök að þessu, og get því látið úttalað.

Jeg skal játa, að vörumagn það, er till. tiltekur, er meir ágiskun, en sú er trú mín og skoðun nefndarinnar, að eigi sje ofmikið tiltekið og því síst þörf að telja varhugavert, að fram gangi tillagan. En þar sem tiltekin er í svigum tunnustærð, er það að eins svo að skilja, hve mikið skuli kaupa. T. d. er ekki hægt að leggja í það þann skilning, að ekki mætti kaupa jafnmikið af vörunni í minni ílátum. Segi jeg þetta eigi fyrir þá sök, að hjer sje skýringar þörf, heldur sakir þessara fyndnu manna, sem stundum gera sjer skemtun að misskilningi á auðskildum atriðum.