13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

154. mál, fóðurbætiskaup

Benedikt Sveinsson:

Till. þessi stefnir í rjetta átt, eins og áður hefir verið tekið fram. Er tæplega vanþörf á að búast vel undir veturinn. Samt er ekki vert að byggja ofmiklar vonir á því að fela stjórninni að kaupa þessa síld, sem ef til vill er ekki hægt að fá. Jeg verð að telja vafasamt, að hægt sje að fá 2000 tunnur af síld í olíutunnustærð, og það fyrst og fremst sakir þess, að nú er nokkuð liðið á síldveiðitímann, skip með langfæsta móti og sjálfsagt ekki meiri afli en svo, að útgerðarmönnum hefir tekist að koma síldinni óskemdri undan og salta hana á vanalegan hátt, sem verslunarvöru, til útflutnings. Þá kostar víst 45 krónur tunnan með venjulegri stærð, en steinolíutunna er langtum stærri og hlyti því að kosta miklu meira, og mundi það verða nokkuð dýr fóðurbætir. Jeg er hræddur um, að þótt skorað sje á stjórnina að útvega þetta, muni það reynast þýðingarlítið, því að ekki muni kleift að útvega svo mikið. En þar sem menn salta síld þannig í olíutunnur, er ekki hætt við, að hún verði flutt úr landinu sem verslunarvara, og er hún þá til, hvort sem stjórnin kaupir hana eða ekki. En ef ætlast er til, að stjórnin ráði, hvar síldin sje seld, sú er til kann að vera söltuð niður í olíutunnur og ætluð til skepnufóðurs, þá getur stjórnin skipað fyrir um það, þótt hún kaupi ekki sjálf. Hins vegar er ekki nema gott, að stjórnin skygndist eftir fóðurbæti, og að því leyti gengur till. í rjetta átt.