13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

154. mál, fóðurbætiskaup

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg má vera þakklátur mönnum fyrir undirtektir þeirra, þar eð allir játa, að þetta er nauðsynjafyrirtæki. Jeg skal geta þess, að jeg treysti hæstv. stjórn vel til að annast þessa hluti. En það, sem gerir nauðsynlegt, að stjórnin annist þetta, er að einstakir bændur hafa varla svo mikinn kunnugleika eða þekkingu á þessum efnum, að við því sje að búast, að þeir viti, hvert þeir skuli snúa sjer. Enn er það annað, að stjórnin á allan skipakost, og fer þá best saman, að hún hafi umsjón með flutningum, og þá um leið starf handa sínum eigin skipum, ef autt er rúm í þeim, og starf það getur orðið landsmönnum í hag. Hvað því viðvíkur, að ef til vill muni ekki fást svo mikil síld, sem til er tekið, þá held jeg, að jeg megi fullyrða, að það fáist, og þótt meira væri. Það mun vera svo mikið eða meira í geymslu víðs vegar á landi. Um leið skal jeg lýsa yfir, að þetta er ekki sett sem hámark til að binda hendur stjórnarinnar, ef hún álítur, sem jeg tel líklegt, þörf á meiru. Verði sá ofan á, að ekki fáist svo mikið, á þar við þetta gamla, sem bjargráðanefnd bað mig flytja deildinni: »Ultra posse nemo obligatur«, þ. e. enginn er skyldur til að leggja meira fram en má.

Jeg álít svo eigi þörf að segja fleira til stuðnings svo sjálfsögðum hlut.