18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (2216)

157. mál, landsreikningarnir 1914 og 1915

Matthías Ólafsson; Jeg veit ekki, hvort mjer misheyrðist það eða ekki, að háttv. frsm. (M. G.) vildi setja hámark á athugasemdir endurskoðenda. (M. G.:

Jeg sagði, að til mála gæti komið að setja lágmark, sem ekki skyldi semja athugasemdir um skekkjur þar fyrir neðan). Ekki get jeg sagt, að mjer lítist á að binda menn svo við borð. Hvað sjálfar tillögumar snertir, þá skal jeg geta þess, að mjer finst eina vanta, sem jeg bjóst að sjálfsögðu við. Mjer finst, að þurft hefði að benda stjórninni á að gæta þess að vera jafnan kurteis í svörum sínum við yfirskoðunarmennina, því að nokkuð virðist skorta á, að svo hafi verið.

Það má ef til vill segja, að sumar athugasemdir yfirskoðunarmanna hafi verið fremur smávægilegar, en allar miðuðu þær að því að fá reikningana sem skýrasta og rjettasta og að fá ráðna bót á reikningsfærslu stjórnarráðsins, því að hún er óhæfileg. Í stað þess að svara yfirskoðunarmönnunum hreint og beint frá sjálfri sjer, grípur stjórnin til þess úrræðis að safna liði gegn þeim og láta forstöðumenn ýmsra stofnana halda uppi svörum fyrir sig. Hvað varðar yfirskoðunarmennina um, hvað þessir undirmenn stjórnarinnar kunna að segja? Stjórnin á ein að bera ábyrgð gagnvart þinginu á því, að hverri fjárveitingu sje varið lögum samkvæmt. Það er því í mesta máta óviðeigandi, að stjórnin sje að láta fylgja sínum svörum svör þessara manna, eins og þau líka eru sum úr garði gerð. Yfirskoðunarmennirnir hafa ekkert saman við þá að sælda, og nóg fyrir stjórnina að hagnýta upplýsingar þeirra í svörum sínum.

Að svo mæltu skal jeg svo snúa mjer fyrst að fimtu tillögu háttv. nefndar. Eins og margir munu kannast við var á þinginu 1915 skipuð nefnd til að athuga ástand og reikninga landsverslunarinnar. Komst sú nefnd að þeirri niðurstöðu, að eftir reikningum þeim, sem fyrir hendi væru, virtist hún hafa gengið sæmilega, en játaði, að hún hefði eigi getað kynt sjer hag verslunarinnar og reikninga nógu vandlega, en gerði ráð fyrir, að reikningarnir mundu verða lagðir fyrir yfirskoðunarmenn landsreikninganna; en það hefir ekki verið gert. Og þrátt fyrir það, þótt yfirskoðunarmennirnir færu bæði munnlega og skriflega fram á að fá reikningana fyrir 1914 og 1915, og þrátt fyrir það, þótt þeim væri gefið munnlegt loforð um það, komu þeir ekki og munu vera ókomnir enn. Það er full ástæða til að vita þetta, að stjórnin skuli virða vettugi óskir þings og yfirskoðunarmanna.

Jeg sje, að háttv. nefnd hefir komist að sömu niðurstöðu sem yfirskoðunarmenn, að eigi muni vera ofætlun að heimta það af stjórninni, að hvers árs landsreikningur sje fullsaminn fyrir lok nóvembermánaðar árið eftir. Jeg skil ekki í, að þetta sje ekki hægt, ef allir reikningshaldarar landssjóðs hafa gert reikningsskil fyrir lok marsmánaðar, eins og þeim ber að gera.

Ef þessa er gætt, trúi jeg ekki öðru en að hinni umboðslegu endurskoðun eigi að geta verið lokið fyrir lok nóvembermánaðar næsta eftir lok reikningsársins. Ef vinnukraft vantar, þá liggur ekki annað fyrir en að útvega hann, og ef húsrúm vantar til að vinna í, þá er líka að útvega það.

Jeg tel það að vísu ekki mikilsvert atriði, að frímerkjabirgðir hjá landssjóði og hjá póstmeistara sjeu rannsakaðar um hver áramót og skrá gerð yfir þær. Þó tel jeg það rjettara, og því er athugasemdin sett. Hitt tel jeg miklu þýðingarmeira, að landsreikningurinn sje tilbúinn í tíma. Það er með öllu óhæfilegt, að hann komi ekki til yfirskoðunarmanna fyr en nálega tveim árum eftir að reikningsárinu er lokið.

Jeg sje, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir þegar beðið um orðið, og þykist jeg vita, að hann muni gera grein fyrir því, að reikningarnir yfir landssjóðsverslunina eru ókomnir enn, og er rjettast að bíða átekta og heyra, hvað háttv. þm. (E. A.) hefir fram að bera í því máli.