18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

157. mál, landsreikningarnir 1914 og 1915

Matthías Ólafsson:

Stjórnin ætti að vera búin að fá skýringar frá þessum mönnum, og það svo greinilegar, að hún væri ánægð með og gæti sjálf gefið umsögn sína til yfirskoðunarmannanna um þá liði, sem þeir beiðast skýringar á. Yfirskoðunarmennina varðar ekkert um, hvað þessir menn segja, því að þeir eiga ekki að ganga eftir því, að skýrslur þeirra sjeu í lagi, heldur stjórnin. Það á því ekki að ryðja í yfirskoðunarmennina löngum ritgerðum, þar sem þeir reyna að verja, hvernig þeir hafa farið með fjeð, því að yfirskoðunarmennirnir eru ekki hóti sannfærðari eftir en áður. Yfirskoðunarmennirnir eiga að eiga við stjórnina eina um reikningana, en aðra ekki. Að minsta kosti yrði stjórnin að tilgreina í svörum sínum, hvað hún gæti fallist á af skýringum þessum.

Hvað verslunarreikningana snertir, er það að segja, að núverandi stjórn hefði átt að skila þeim fyr, enda hefði það verið vandalaust, ef þeir hefðu verið gerðir upp um nýár af fráfarandi stjórn. En jeg verð að segja, að mjer finst, að jeg verði að virða henni til vorkunnar, að hún gerði það ekki, því að hún tók við völdum í janúar, en átti að skila þeim í febrúar, en það var ómögulegt, eins og var í garðinn búið. Verslunin hafði aldrei verið gerð upp um áramót, heldur í fyrsta skifti um mánaðamótin maí —júní í vor. Það eina, sem áður var gert, var málamyndayfirlitið 1915, og frammistaðan er því ekki góð. Það er ljeleg afsökun að segja, að búist hafi verið við, að verslunin stæði ekki nema skamma tíð, því að vitanlega átti að gera hana upp um hver áramót, eins og hverja aðra verslun. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg álíti, að neitt hafi tapast á versluninni; jeg býst heldur við, að eitthvað hafi græðst á henni. En þetta er svo mikið fyrirtæki, að þingið á heimting á að vera ekki dulið, hvernig það gengur. Það hefir aldrei áður verið ráðist hjer í svo stórt fyrirtæki sem þetta, og það er því ófyrirgefanleg vanræksla að gera það ekki upp.