18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

157. mál, landsreikningarnir 1914 og 1915

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. þm. V. Ísf. (M. Ó.) kvaðst hafa búist við þeirri tillögu frá fjárhagsnefnd að skora á stjórnina að gefa yfirskoðunarmönnum kurteis svör. Nefndinni þótti ekki ástæða til þess, því að þótt öllu hafi verið til skila haldið fyrra árið, að svör stjórnarinnar gætu heitið kurteis, þá er svo ekki nú.

Hvað snertir það atriði, að svarið sje ekki frá stjórninni sjálfri, þegar hún sendir skýringar landsverkfræðings eða annara slíkra starfsmanna, þá er það ekki rjett. Með því að taka upp skýringu þeirra gerir stjórnin hana að sínu eigin svari. En það þyrfti að útrýma þeim kala, sem virðist vera milli stjórnarinnar og yfirskoðunarmannanna og hindrar samvinnu.

(M. Ó.: Jeg neita því, að það sje nokkur kali).

Um landssjóðsverslunina er nefndin sammála yfirskoðunarmönnunum og kemur því með áðurnefnda till. sína um hana. Það er það eina, sem hægt er að gera, og hygg jeg, að menn verði ánægðir með það, því að ekki tjáir að sakast um orðinn hlut.