11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Forsætisráðherra (J. M.):

Hv. formaður fjárveitinganefndar (B. J.) og háttv. þm. Stranda. (M P.) leggja áherslu á það, að ekki sje samþyktur styrkur til skólanna fyrir þá sök, að með því sje viðurkend ný stefna í afstöðu landssjóðs til skólanna. Já, það er engin stefnubreyting af þingsins hálfu frá því, sem hingað til hefir verið, heldur er það nefndin, sem kemur með nýja stefnu. Þeir, sem kunnugir eru þessum málum, vita, að stefnan hefir verið þessi. Að minsta kosti er það fyrir löngu orðin hefð með Flensborgarskólann, að þingið álítur sig eiga að leggja honum það, sem hann þarf.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J) talaði um, að stjórnin hefði ekki kynt sjer hag þessara skóla. Þetta er ekki rjett. Sýnt hefir verið fram á, að kvennaskólinn í Reykjavík hefir tapað 3000 kr. árið sem leið. Eignir hans rýrast því um þessa upphæð, ef hann fær engan styrk. Jeg sje ekki, að það geti gert neinn stefnumun, hvort skólanum er bætt upp þetta tap með 2000 kr. eða 2500 kr. Eitthvað svipað er að segja um Blönduósskólann, en því miður hefi jeg ekki fyrir mjer reikninga hans.

Um Flensborgarskólann er það að segja, að hann er orðinn skuldugur um 3000 kr. Þessa skuld verður landssjóður að hjálpa honum til að borga, því að honum kemur engin hjálp til þess annarsstaðar að. Verði honum synjað um þennan styrk, getur hann varla ráðið fram úr því. Flensborgarskólinn hefir um langan tíma verið landsskóli og aldrei fengið styrk frá öðrum. Þá er það líka kunnugt, að mjög sparlega er farið með fje skólans, og engin ástæða er til að óttast, að því sje sóað á nokkurn hátt. Hjer er því ekki um neinn stefnumun að ræða, þótt styrkurinn verði veittur. Jeg skal játa það, að um Blönduósskólann er nokkuð öðru máli að gegna. En það er þó upplýst, að hann hefir ekki nægilegt fje til nauðsynlegustu þarfa.