11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætlaði mjer ekki að segja meira en jeg var búinn. En vegna ræðu háttv. þm. Barð. (H. K.) neyðist jeg til að segja nokkur orð um brtt. mína um styrk til Breiðafjarðarbátsins. Það er alleinkennilegt að heyra þm. (H. K.) halda á móti styrkveitingu til ferða um sitt eigið hjerað, þegar það liggur fyrir í skjölum, undirskrifuðum af góðum mönnum, að fjelagið hafi tapað á útgerð bátsins 7620 kr. alls, auk þess, sem hvorki hefir verið hægt að greiða neina vexti af hlutafjenu, nje leggja neitt í fyrningarsjóð. Þetta er háttv. þm. Barð. (H. K.) kunnugt, og ef hann trúir ekki fulltrúum þriggja sýslnanna til þess að fara rjett með þetta mál, þá ætti hann að fá sitt kjördæmi skilið frá. Hygg jeg, að það mundi auðsótt. Að minsta kosti skyldi ekki standa á mjer að leggja því liðsyrði. Það getur litið nokkuð undarlega út, að ein af sýslunum, sem bátsins eiga að njóta, þykist ekkert hafa með neinn styrk að gera, og mig furðaði ekki á því, að aðrir yrðu í dálitlum vafa um það, hvernig þeir ættu að greiða atkv., ef þeir kynnu ekki að gera upp á milli mannanna.