07.09.1917
Neðri deild: 54. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

161. mál, uppeldismál

Sigurður Sigurðsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram viðaukatill. á þgskj. 494 við till, háttv. þm, Dala. (B. J.) á þgskj. 451. Þar er farið fram á, að stjórninni sje til viðbótar falið að rannsaka, hvort eigi muni tiltækilegt að flytja hinn almenna mentaskóla og kennaraskólann til hinna fornu skólasetra, Bessastaða eða Skálholts, eða á einhverja opinbera eign í nærsýslunum við Reykjavík.

Þessi till. er komin fram út af áskorun á þingmálafundum í vor í Árnessýslu, þar sem því var hreyft, að þetta væri athugað, og skorað á þingmenn kjördæmisins að flytja það á þingi í einhverri mynd.

Jeg er þakklátur háttv. þm. Dala. (B. J.) fyrir það, hvernig hann tók í till. Og það er alveg rjett, sem hann sagði, að það sem fyrir mjer vakti, var, að ef skólarnir væru í sveit, yrðu þeir á ýmsan hátt þjóðlegri en nú er, með því fyrirkomulagi, sem á þeim er. Annað er það í þessu sambandi, sem mundi stuðla að því, að skólarnir yrðu þjóðlegri, ef þeir væru í sveit, sem sje, að þar er miklu auðveldara að koma við æfingum í íþróttum og útileikum en hjer í bænum. Á þetta atriði lagði háttv. þm. Dala. (B. J.) sjerstaka áherslu, og vildi jeg undirstrika það, sem hann sagði um þýðingu þess, að ungir menn æfi sig í allskonar íþróttum. Það er sjálfgefið, að þetta yrði miklu auðveldara ef skólarnir væru í sveit. Ef skólarnir væru í sveit, losnuðu nemendurnir við skarkala og glaum bæjarlífsins, sem álitinn er hafa miður góð áhrif á námið, og mun stundum hafa orðið þess valdandi, að allur lærdómur fór út um þúfur.

Jeg vil ekki segja neitt misjafnt um bæjarlífið yfir höfuð. En margt foreldri mun hafa sent og mun senda börn sín með hálfum huga í skóla í Reykjavík, vegna ýmsra áhrifa, sem unga fólkið verður hjer óhjákvæmilega fyrir. Sumir munu jafnvel líta á Reykjavík sem einskonar Sódóma eða Gómorra. En sem betur fer munu þeir ekki vera margir. En það mun hafa brunnið við, að sumir hafi orðið hjer fyrir miður góðum áhrifum.

Í sveit gætu nemendur stundað nám sitt betur. Heilsu þeirra væri betur borgið, og miklu minni hætta á, að þeir veiktust af ýmsum þeim kvillum og sjúkdómum, sem áleitnari eru í kauptúnum og bæjum en til sveita.

Jeg vildi mæla sem best með minni till., að hún verði samþ. Þessi krafa er ekki ný; hún hefir komið fram frá mörgum mætum mönnum, þar á meðal Þórhalli sál. Bjarnarsyni, biskupi, sem braut upp á henni í Nýju Kirkjublaði fyrir nokkrum árum, og fleirum.

Út af dagskránni, sem fram er komin, skal jeg taka það fram, að jeg sje engan mun á henni og till. háttv. þm. Dala. (B. J.). Hann tók það fram, að hann ætlaðist til, að stjórnin ljeti athuga þetta mál, og gat þess, að hann ætlaðist ekki til, að það væri gert í neinu hendingskasti. Jeg tek að öllu leyti undir það, sem hann hefir sagt um þetta mál, og greiði atkv. með till. hans.