25.08.1917
Neðri deild: 43. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

170. mál, útibú í Árnessýslu frá Landsbanka Íslands

Flm. (Einar Arnórsson):

Eins og háttv. deildarmönnum mun kunnugt var samþykt hjer í deildinni frv. til laga um að heimila stjórninni að stofna útibú frá Landsbanka Íslands austanfjalls.

Háttv. Ed. hefir afgreitt frv. þannig að vísa því til stjórnarinnar. Ástæða sú, sem háttv. Ed-nefnd hefir fært fyrir þessu, og víst er verjandi að lögum, er sú, að heimild sje fyrir þessu í núgildandi lögum, en ber engar brigður á ástæður þær, sem færðar voru fyrir frv. í greinargerð og framsögu.

Það, sem farið er fram á með þessari till., er að hæstv. stjórn hlutist til um, að þetta útibú verði sett á stofn svo fljótt sem unt er. Till. er að eins áskorun í þá átt, en það úrskurðar stjórnin, í samráði við bankastjórn, hve nær útibúið verði stofnsett.

Jeg tel svo ekki þörf fleiri orða, en vona, að till. nái fram að ganga. Skal jeg að öðru leyti skírskota til þess, sem jeg sagði um frv.