27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Þessi þingsályktunartillaga frá oss allmörgum er komin fram af því, að það virtist koma allótvírætt fram í umræðunum hinn svokallaða eldhúsdag, að stjórnin hafi misskilið vilja þingsins í þessu efni.

Á aukaþinginu í vetur var borin fram þingsályktunartill. þess efnis, að Alþingi skori á landsstjórnina að selja vörur þær, er hún fái framvegis frá útlöndum, með sama verði alstaðar á landinu, og að kostnaður sá, er leiði af sendingu vörunnar hafna á milli, leggist á vöruna í heild sinni, áður en útsöluverðinu sje jafnað niður.

Í nefndarálitinu um tillögu þessa er það tekið fram, að hún sje tekin aftur,

með því að svo bæri á að líta sem það, er hún færi fram á, kæmi fram í 2. gr. laganna um heimild fyrir landsstjórnina til ýmsra ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum, þar sem stjórninni er heimilað að veita þeim, sem búa utan Reykjavíkur, sanngjarna ívilnun á kostnaði við að senda vörurnar milli hafna eða staða umhverfis landið.

Það getur verið, að stjórnin hafi ekki skilið það svo, að í þessu lægi, að selja ætti landssjóðsvörur sama verði um land alt. En það sjest ekki, hvernig stjórnin hefir hugsað sjer að láta þessa ívilnun koma fram, og eftir ummælum hæstv. forsætisráðherra eldhúsdaginn kom það helst í ljós, að stjórnin mundi ekki sjá sjer fært að nota heimild þá, sem nefnd er hjer á undan, og fullnægja með því þeirri rjettlætiskröfu, sem þar er gerð og hún eftir skilningi þingsins átti efalaust að fullnægja.

Það verður stór munur á vöruverði í Reykjavík og úti um land við það að þurfa að borga hið háa flutningsgjald, sem á þær fellur þaðan og hækkað hefir svo mjög nú í sumar. Þannig mun flutningsgjaldið á einni steinolíutunnu nú vera 20 kr. Eiga þó þeir, sem við þetta verða að búa, rjettlætiskröfu til að fá vöruna með sama verði sem Reykjavíkurbúar, og ættu ekki að gjalda þess, að landssjóðsskipin eru látin flytja hana til Reykjavíkur og lengra ekki.

Jeg skal með dæmi sýna fram á, hve þungur skattur er lagður á þá, sem verða að greiða þetta háa aukagjald, borið saman við þá, sem eru lausir við það. Setjum svo, að 100 tunnur væru sendar frá Reykjavík. Aukagjaldið, sem legst á þá, sem fá þær, verður 2000 kr. Setjum enn fremur svo, að móts við þessar 100 tunnur komi 300 tunnur, sem ekkert aukagjald legst á. Væri nú hinu háa flutningsgjaldi jafnað niður á allar þessar 400 tunnur, yrði verðhækkunin þó ekki nema 5 kr. á tunnuna, og sjá allir, hversu sanngjarnara og bærilegra það er, heldur en að 20 kr. sjeu lagðar á tunnuna hjá sumum, en hjá öðrum ekkert. Líkt er og að segja um aðrar vörur. Það er rjettlætiskrafa, að verðið á þeim sje jafnað; og þótt vörurnar verði við það nokkru dýrari en ella fyrir þá, sem eru svo hepnir að vera á þeim stað, sem þeim er fyrst skipað á land, ættu þær ekki að verða dýrari en hjá kaupmönnum. Það má sem sje gera ráð fyrir, að stjórnin geti sætt jafngóðum kaupum á vörum sínum sem stórkaupmenn; og þeir þurfa engu síður en hún að leggja á vöruna allan kostnað við að koma henni hingað; umboðsmenn taka sín umboðslaun, og smákaupmenn þurfa að reikna sjer töluverðan ágóða. Skil jeg ekki í öðru en að þetta svari fullkomlega flutningskostnaði á vörunni út um land.

Þá er að athuga, hvort innanlandskostnaður muni vera meiri hjá stjórninni en hjá stórkaupmönnum hjer.

Hæstv. atvinnumálaráðherra var spurður, hvert kaup þeir menn hefðu, sem störfuðu fyrir stjórnina við landssjóðsverslunina. Hann sneiddi að vísu hjá að svara því, en jeg geng að því sem gefnu, að þeir, sem hæst kaup hafa af þeim, hafi þó ekki hærri laun en skrifstofustjórinn á annari skrifstofu í stjórnarráðinu, sem bæði er talinn nýtur maður, og hefir hingað til haft mest með landssjóðsverslunina að sýsla, eða 3500 kr., eins og hann. Þetta þykir mjer því sennilegra, sem hjer mun vera um viðvaninga að ræða og ekki sjerfróða um verslunarmál. Öðru máli væri að gegna, ef það væru alvanir verslunarmenn, sem hefðu orð á sjer fyrir sjerstakan dugnað í sinni grein. Að vísu hefir nú fallið nýr kostnaður á landssjóðsverslunina við það, að landsstjórnin hefir sett einskonar deildarstjóra úti um land, og verður að borga þeim; en það tel jeg óþarfakostnað.

Ef stjórnin sæi sjer fært að draga úr þessum innanlandskostnaði, sem nú mun vera að verða allmikill, og það um skör fram, þá gæti hún, í viðbót við það, sem áður hefir verið tekið fram, haft í höndum fje til að jafna með flutningskostnað á vörum út um land. Jeg tek það upp, að jeg álít þessar eftirlitsnefndir, sem stjórnin hefir skipað úti um land og hún borgar formanni þeirra, vel mega missa sig.

Eins og sjá má erum vjer allmargir, sem flytjum þingsályktunartillögu þessa, og viljum vjer með því láta í ljós, að það sje enn fastur vilji þingsins, að stjórnin breyti ekki gegn þingvilja þeim, sem fram kom í vetur og enn kemur fram, nema alveg sjerstakar ástæður sjeu til þess.