27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg vildi taka það fram, að það skiftir miklu máli, að strandferðaskipin komi sem víðast við, því að, eins og verið hefir, hafa mörg hjeruð orðið illa út undan að því er skipakomur snertir.

Það er vitanlegt, að það er dýrt að láta dýr skip koma víða við, en kostnaðurinn, sem af því leiðir fyrir hjeraðsbúa, ef skipin koma sjaldan eða óvíða, er líka svo gífurlegur, að það er mjög mikið spursmál, hvort það verður ekki ódýrara að láta skipin koma sem víðast við, þegar á hagnað alls landsins er litið,

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hefir alveg misskilið mig, því að hann áleit, að jeg hefði haldið því fram, að þeir menn, sem forstöðu landssjóðsverslunarinnar hafa haft á hendi, væru ekki nýtir menn. Það var öðru nær. Jeg sagði að eins, að þessir menn hefðu að sumra áliti ekki fengið neina sjerstaka verslunarþekkingu fram yfir aðra menn. Hann gat þess líka, að laun forstjóra landssjóðsverslunarinnar mættu ekki vera minni en það, sem menn alment gætu haft upp úr sjer við verslun. Það hefir verið talið nokkurn veginn víst fram til þessa, eins margir menn og stunda þá atvinnu, að þeir hefðu ekki allir svo mikið fje, sem hjer er um að ræða, upp úr þeirri atvinnu, enda taldi hv. þm. (M. Ó.) 3500 kr. venjuleg kaupmannslaun, og þá ætti forstöðumaður þessarar verslunar að vera ánægður með það. Hvort tíminn verður stuttur er alveg óákveðið, og jeg held, að það hefði ekki verið ástæða til að launa manninum gífurlega hátt fyrir þá sök.

Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að ástæða væri til að láta landhjeruðin hjer í kringum Reykjavík fá vörurnar með svo lágu verði, sem hægt væri, og það er alveg rjett. En geri maður ráð fyrir, að dýrt sje að flytja vöruna heim til sín úr kaupstaðnum, og sá kostnaður getur auðvitað verið misjafnlega mikill, en alstaðar einhver og sumstaðar stórmikill, þá er þess ósanngjarnara að leggja á hana allan þann kostnað, sem leiðir af flutningnum á sjó eða með ströndum fram. Og þegar nú svo stendur á, að landssjóður hefir alla verslunina, þá virðist ekki nema sjálfsagt, að allir landsmenn fái að njóta sama jafnrjettis. Hvað steinolíufjelagið snertir, þá fæ jeg ekki annað skilið en að það gæti, ef það vildi, lagt allan kostnaðinn á olíuna þegar í upphafi og selt hana sem því svaraði dýrara hjer. Þótt Reykvíkingar sjeu svo settir, að skipin komi fyrst til þeirra, þá eiga í raun og veru allir landsmenn sömu rjettlætiskröfu til þess.

Það, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að styrkinn, sem veittur er til strandferða, mætti taka til greina í þessu sambandi, þá er það sama að segja um hann og aðrar svipaðar fjárveitingar, að þær eru veittar til þess, að þau hjeruð, sem illa eru sett, njóti sömu rjettinda og hin.

Jeg vænti þess svo, að háttv. bjargráðanefnd afgreiði málið svo fljótt sem auðið er, til þess að það komist í gegnum þingið.