11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hefi ekki getað fylgst með umræðunum hjer í deild í þessu máli í dag. Jeg heyrði alls ekki, hvað hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hafði að segja um brtt. á þgskj. 868.

Eins og háttv. frsm. (E. A.) tók fram koma fram svipaðir örðugleikar, hvort sem fylgja skal aðaltill. eða brtt., nema að því leyti, að eftir brtt. er um minni verðupphæð að tefla.

Jeg tek í sama streng sem hv. frsm. (E. A.), að stjórninni hefir virst mjög örðugt að eiga að framfylgja því, sem till. fer fram á, en með því að háttv. þm. (E. A) hefir einmitt borið fram þær sömu ástæður sem fyrir stjórninni vöktu, þá sje jeg ekki ástæðu til að taka þær fram aftur.

Hin rökstudda dagskrá á að geta verið fult aðhald eða hvöt fyrir stjórnina til að láta verðlag vera svo jafnt á hinum ýmsu stöðum í landinu, sem hún sjer sjer frekast hægt. Jeg skal taka það fram, að stjórnin ætlast til, að hjer eftir verði ekki verulegur verðmunur á helstu nauðsynjavörum úti um land; nú er hægra um hönd að koma þessu við, með því að stjórnin getur nú að miklu leyti notað sín eigin skip til flutninga kringum landið. Jeg skal tilnefna þær vörutegundir, sem stjórnin ætlast til að framvegis verði ekki verulegur verðmunur á, á helstu stöðum, sem skipin koma við á; þær eru salt, kol, steinolía og sykur. Stjórnin hefir að vísu ekki enn getað rætt málið ítarlega með sjer; en umræður hafa þó helst fallið í þá átt að fara ekki lengra að sinni en þetta. En að því er aðrar vörur snertir, mun hún og taka fult tillit til hinnar rökstuddu dagskrár, þó að það sje mjög örðugt að koma sömu reglunni við um allar vörur; en það er samt hægara með þessar þungavörur, enda skiftir og miklu um þær.