11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil að eins leyfa mjer að leiðrjetta það, sem komið hefir fram í umræðunum, að stjórnin hafi ekki tekið tillit til vilja aukaþingsins í vetur. Þetta er ekki rjett. Því að kunnugt er um þá vöru, sem hún hefir haft ein, sem sje sykur, að hún hefir selt hann með sama verði um alt land. Jeg hygg líka, að það sje rjett, að steinolían, sem kom í vor, hafi verið seld með sama verði alstaðar, og það er því alls ekki rjett, að stjórnin hafi ekki tekið tillit til vilja aukaþingsins í vetur. Þar að auki hefir stjórnin sent dálítið af einstaka vöru til sumra staða án þess að reikna flutningsgjald. Hitt er ómögulegt, að leggja allan flutningskostnaðinn á alla vöruna, því að það er ómögulegt að reikna hann út fyrir fram, og þýðir því ekkert um það að tala. Þar sem háttv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að það mætti heimta pantanirnar fyrirfram, þá yrði að vera búið að því áður en skipin koma til landsins. En hart mundi það þykja, ef einhver sveitarstjórn væri í neyð, að segja þá við hana: Þú færð ekkert; þú hefir ekki pantað í tíma. Steinolía sú, sem landsstjórnin útvegar í framtíðinni, verður seld með sama verði á öllum helstu höfnum landsins, og sama getur orðið um salt og kol, sem stjórnin mun reyna að draga að landinu. Að fara lengra en þetta held jeg að sje alveg ófært, því að það hlýtur að gera landssjóðsskrifstofunni afarmikla örðugleika, og jeg sje því ekki, að það sje fært að samþykkja till. nje brtt., eins og þær eru orðaðar. Hitt er annað mál, ef reynt yrði að leggja vörubirgðir upp víðs vegar á landinu, og þær má reikna með sama verði og á samskonar vörum í Reykjavík. En að binda stjórnina, eins og þessi till. gerir, það finst mjer að þingið ætti ekki að gera. Auðvitað ætti stjórnin ekki að vera á móti því að fá fastar reglur, svo að hún gæti vísað til þingsins, en það er líka vitanlegt, að hvað sem stjórnin gerir, þá er fundið að því, og það verður hún að þola, en á hinn bóginn varla annað hægt en að gefa henni nokkuð frjálsar hendur, svo að hún geti farið eftir því, sem heppilegast er í hverju einstöku tilfelli. Jeg verð því af þessum ástæðum, sem jeg hefi tekið fram, að mæla eindregið með því, að dagskráin verði samþykt. Jeg held, að háttv. þingmenn fari fram á þessa till. af því, að þeir sjeu ekki nógu kunnugir málinu.