11.09.1917
Neðri deild: 57. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2202 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

171. mál, verð á landssjóðsvöru

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi ekki miklu við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt og aðrir hafa ýmist tekið skýrar fram eða bætt eitthvað við. Hjer skiftast menn vitanlega í flokka á milli till. og dagskrárinnar. Mjer finst, að þótt dagskráin verði samþykt, standi alt í sama farinu og ekkert sje unnið, heldur einungis tapað tíma. Með henni er ekkert tekið skýrar fram, hvernig stjórnin eigi að fara að og hvernig hún eigi að skilja 2. gr. laganna frá 2. febr. í vetur, sem svo oft hefir verið misskilin. Dagskráin gefur enga skýringu á þeirri grein, en það gerir þó tillagan. Jeg skal taka það ljósar fram en áður, hvað kom mjer til að skrifa undir till. Jeg leit svo á, að það hefði verið ákveðið í upphafi, að stjórnin skyldi selja landsjóðsvörurnar með sama verði á öllum höfnum, en það mætti náttúrlega teygja þannig, að vöruna ætti að taka aftur af þeim höfnum og flytja hana inn á allar smáhafnir með flóabátum og selja hana síðan þar fyrir sama verð og annarsstaðar. Það þætti mjer altof hörð krafa, enda gæti hún líka valdið deilum, ekki síður en þessi áminstu lög.

Með brtt. er ráðin bót á þessu, því að þar er skýrt til tekið, á hverja staði skuli flytja vöruna. Það er líka ljóst, að ef brtt. á þgskj. 868 verður samþ., þá verður þeim miklu síður íþyngt, sem búa á suðurhluta landsins eða í grend við Reykjavík. Mætti jafnvel gera ráð fyrir, að þeir fyndu alls ekki til þessa litla flutningskostnaðar. Munurinn yrði ekki meiri en á smásölu og stórsölu. Verði dagskráin samþykt, þá er engu breytt frá því sem er. Lögin frá 1. febr. síðastl. gilda þá, og stjórnin á jafnerfitt með að fóta sig á 2. gr. þeirra og áður; ákvæðin eru svo teygjanleg, að enginn veit, hvar nemur staðar, og óánægjan með framkvæmdir stjórnarinnar heldur áfram. Mjer virðist, að henni ætti að vera þökk á því, að endimarkaður verði skilningur 2. gr. þessara laga, og það fæst með breytingartillögunni á þgskj. 868.